Neysla ferðamanna tekið stakkaskiptum

Ferðamenn hvíla sig og njóta útsýnis af Brennisteinsöldu í Landmannalaugum
Ferðamenn hvíla sig og njóta útsýnis af Brennisteinsöldu í Landmannalaugum mbl.is/Kristinn Magnússon

Neyslumynstur ferðamanna hefur tekið skörpum breytingum á síðustu árum en í stað minjagripa, fatnaðar og annarra vara sækja þeir æ meir í upplifanir. Þá eru vísbendingar um að ágætlega hafi tekist að fá betur borgandi ferðamenn til landsins. 

„Við höfum séð síðustu ár að heilt yfir hefur þunginn færst úr verslun yfir í ýmis konar ferðaþjónustu eins og til dæmis skipulagðar ferðir,“ segir Konráð S. Guðjónsson, sérfræðingur hjá greiningardeild Arion banka. Bankinn stóð á dögunum fyrir fundi um þar sem kynnt var skýrsla greiningardeildar um ferðaþjónustu á Íslandi.

Úr úttekt Arion banka.

Greining á kortaveltu erlendra ferðamanna sýnir töluverðar breytingar á neyslumynstri ferðamanna. Sé horft yfir fimm ára tímabil, frá 2012 til 2017, sést að hlutdeild fata-, gjafavöru- og tolfrjálsrar verslunar í neyslu ferðamanna hefur dregist saman um 2 prósentustig. Hlutdeild annarrar verslunar hefur dregist saman um 4 prósentustig en hlutdeild dagvara aukist um eitt prósentustig. 

Á sama tíma hefur hlutdeild ýmissar ferðaþjónustu, sem nær til dæmis yfir skipulagðar ferðir, aukist úr 17% í 21%. Eins gildir um bílaleigu sem jókst úr 13% í 16%, og gistiþjónustu en hlutdeild hennar jókst lítillega, eða um eitt prósentustig.

Álíka þróun var milli 2016 og 2017 en á tímabilinu maí til júlí dróst gjafa- og minjagripaverslun saman um 18% milli ára, tollfrjáls verslun um 5% og önnur verslun um 9%, en töluverð aukning var á þáttum sem snúa að upplifunum eins og bílaleigu, gistiþjónustu og skipulögðum ferðum. 

„Við veltum fyrir okkur hvort að þetta séu að hluta til áhrif verðbreytinga, að fólk hafi frekar sparað við sig í vörum en upplifunum eftir því sem Ísland hafi orðið dýrara. Að sama skapi virðist vera alþjóðleg þróun að fólk ferðist meira í leit að upplifunum heldur en að slappa bara af. Líklega eiga bæði áhrifin við að einhverju leyti,“ segir Konráð og bætir við að markaðsrannsóknafyrirtækið Technavio spái því að ævintýraferðamennska vaxi um næstum 50% á ári fram til 2020. 

Ferðamenn eyða meiru

Hann segir að merki séu þess að ágætlega hafi tekist að fá betur borgandi ferðamenn til landsins. Heilt yfir séu ferðamenn að eyða meira í eigin mynt en áður, Bandaríkjamenn eyði meiru mælt í dölum, Norðmenn í norskum krónum og svo framvegis. 

„Þetta er að einhverju leyti kaupmáttaraukning erlendis en þó væntanlega ekki að miklu leyti þar sem að hún hefur verið lítil í helstu viðskiptalöndum okkar,“ segir Konráð. „Flugið er ódýrara þannig að fólk hefur meira til skiptanna þegar það er komið til landsins en þetta er það hröð breyting að manni finnst líklegt að það hafi tekist ágætlega að fá betur borgandi ferðamenn eða að minnsta kosti að Ísland hafi haldið velli sem áfangastaður þar sem ferðamenn eyði tiltölulega miklu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK