Hömlur á leigubílamarkaði verði afnumdar

mbl.is/Jim Smart

Samkeppniseftirlitið telur að úr ýmsu þurfi að bæta til þess að virk samkeppni fái betur þrifist á leigubílamarkaðinum. Að mati eftirlitsins er lagaumhverfið á margan hátt hamlandi og hefur það ítrekað mælst til þess að opinberar hömlur verði afnumdar.

Þetta kemur fram í umsögn Samkeppniseftirlitsins um þingsályktunartillögu um frelsi á leigubílamarkaði. Hanna Katrín Friðriks­son þingmaður er flutningsmaður tillögunnar en hún seg­ir fákeppni á markaðinum til þess fallna að þrýsta upp verðlagi og stuðla að skorti á þjón­ustu á álags­tím­um.

Í umsögninni er mælst til þess að fjögur ákvæði núgildandi laga verði endurskoðuð. Í fyrsta lagi ákvæðið sem takmarkar fjölda leigubíla en sú takmörkun er talin hafa augljós neikvæð áhrif á samkeppni.

„Nefna má að fjöldi leigubifreiða á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum er svipaður og þegar Samkeppniseftirlitið skrifaði álit til samgönguráðherra fyrir 11 árum síðan, þrátt fyrir mikla fólksfjölgun og sprengingu í komu ferðamanna til landsins.“

Í öðru lagi er það bannið við að veita fleiri en eitt atvinnuleyfi til hvers aðila en að mati eftirlitsins kemur það í veg fyrir að unnt sé að stofna leigubílastöðvar með því að kaupa ökutæki, afla starfsleyfis og ráða ökumenn í vinnu. 

Í þriðja lagi er það áskilnaður um að akstur leigubíla sé aðalatvinna þeirra sem stunda aksturinn og í fjórða lagi stöðvaskylda leigubíla. 

Undirstrikað er að þrátt fyrir öra fjölgun íslensku þjóðarinnar og mjög öra fjölgun erlendra ferðamanna til landsins hafi útgefnum leyfum til leigubílaaksturs fækkað úr 560 í 547 á nokkrum árum. 

Þarf ekki strangari reglur en í nágrannalöndum

Þá kemur Samkeppniseftirlitið inn á öryggis- eftirlitshlutverk leigubílstöðva. „Eftirlitið fær þó ekki séð að með það þurfi að fara með öðrum og strangari hætti en gert er í nágrannalöndum okkar. Ekki hefur verið sýnt fram á það að mati Samkeppnieftirlitsins að hér á landi þurfi strangari aðgangskröfur til leigubílaaksturs en í nágrannalöndum í því skyni að skilja hafrana frá sauðunum í flokki leigubílstjóra með tilheyrandi samkeppnishömlum sem leiða til hærra verðs til neytenda og lakari þjónustu við þá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK