Undirrituðu 600 milljóna samning

Við undirritunina í gær.
Við undirritunina í gær.

Dirk Beckers, framkvæmdastjóri aðgerða Evrópusambandsins í loftslagsmálum, og Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix, skrifuðu í gær undir tæpra 600 milljóna króna styrktarsamning nýsköpunarsjóðs sambandsins við frekari þróun Carbfix-kolefnisbindingaraðferðarinnar við Hellisheiðarvirkjun Orku náttúrunnar. Styrkurinn nemur tæpum helmingi heildarkostnaðar við verkefnið, sem kallast Silfurberg og miðar að sporlausri orkuvinnslu í virkjuninni.

Þetta kemur fram í tilkynningu. 

Undirritunin fór fram í Brussel á einum hliðarviðburða COP26 þar sem Beckers greindi frá stuðningi sambandsins við þrjú verkefni sem öll miða að kolefnishlutleysi. Edda Sif flutti ávarp á málþingi sem Evrópusambandið gekkst fyrir í tilefni samninganna.

Koldíoxíð bundið varanlega

Carbfix hefur þegar komið við sögu á COP26, sem nú stendur yfir, en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra vék sérstaklega að fyrirtækinu og aðferð þess til varanlegrar kolefnisbindingar í ávarpi við setningu loftslagsráðstefnunnar í Glasgow.

„Markmið Silfurbergs-verkefnisins er að byggja nýja hreinsistöð við Hellisheiðarvirkjun sem mun fanga nær allt koldíoxíð og brennisteinsvetni úr útblæstri virkjunar okkar sem síðan verður dælt niður í nálæg basaltberglög til varanlegrar steinrenningar með Carbfix tækninni. Þar með mun Orka náttúrunnar skipa sér í fremsta flokk grænnar jarðvarmanýtingar með sporlausri framleiðslu rafmagns og varma,“ er haft eftir Berglindi Rán Ólafsdóttur, framkvæmdastýru Orku náttúrunnar, í tilkynningu.  

Þar kemur fram að Carbfix hafi þróað tækni fyrir varanlega bindingu koldíoxíðs við Hellisheiðarvirkjun frá árinu 2007 í samstarfi við innlendar og erlendar rannsóknastofnanir. Tæknin sem um ræðir krefst einungis rafmagns og vatns og hefur starfsemin óveruleg umhverfisáhrif, samkvæmt tilkynningu. 

Hún felur það í sér að koldíoxíð er leyst í vatni því og dælt niður í basaltberggrunninn þar sem náttúruleg ferli steinrenna það til frambúðar.

„Með þessu móti er koldíoxíðið varanlega bundið í steindum djúpt í berggrunninum og þannig komið í veg fyrir áhrif þess á loftslagið. Einnig er hægt að beita aðferðinni fyrir aðrar gastegundir á borð við brennisteinsvetni, en það hefur einnig verið fangað frá virkjuninni og dælt niður frá árinu 2014,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK