Aðgerðir stjórnvalda „augljóslega að virka“

Ágúst Bjarni Garðarsson, fyrsti varaformaður og starfandi formaður efnahags- og …
Ágúst Bjarni Garðarsson, fyrsti varaformaður og starfandi formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. mbl.is/Sigurður Bogi

Ágúst Bjarni Garðarsson, fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, segir það óumdeilt að aðgerðir stjórnvalda til að sporna gegn verðbólgu séu að hafa skýr áhrif. Hann telur enga þörf vera á frekari hækkun stýrivaxta.

Greint var frá því að tólf mánaða verðbólga mæl­ist nú 7,6% og minnk­i frá júní­mánuði þegar verðbólg­an mæld­ist 8,9%. Verðbólga hefur því ekki mælst lægri síðan í maí 2022.

„Þetta er mjög jákvæð þróun og í takti við aðgerðir stjórnvalda og sýnir það svart á hvítu að aðgerðirnar eru að virka. Það er mjög brýnt og gríðarstórt hagsmunamál fyrir fjölskyldur í landinu að stýrivextir fari að lækka í kjölfarið,“ segir Ágúst í samtali við mbl.is.

Spurður um þær aðgerðir sem hann vitnar í svarar hann: „Það var farið ákveðnar aðhaldsaðgerðir. Það var skorið niður og framkvæmdum var frestað og slíkt. Þær aðgerðir eru augljóslega að virka. Ég held að það sé algjörlega óumdeilt þegar maður rýnir í þessar tölur.“

Þurfum að halda áfram að byggja

„Það er auðvitað þannig að húsnæðisverð lækkar á milli mánaða. Þó ég hafi verið mjög gagnrýninn á aðgerðir Seðlabankans á húsnæðismarkaði, þá eru þær augljóslega að hafa einhver áhrif. Maður hefur verið að sjá mikla hækkun á fasteignaverði á seinustu árum,“ segir Ágúst.

„Það sem maður óttast núna er að það er ennþá skortur á eignum og ef við höldum ekki áfram að byggja þá munum við sjá fasteignaverð halda áfram að hækka.“

Finnst þér því að Seðlabankinn ætti ekki að hækka stýrivexti aftur í ágúst?

„Ég held að það sé engin þörf á því. Við sjáum að verðbólgan er að lækka og það er bara mjög jákvæð þróun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK