Fínstilling frekar en stór hækkun vaxta

Jón Bjarki er aðalhagfræðingur Íslandsbanka.
Jón Bjarki er aðalhagfræðingur Íslandsbanka. Ljósmynd/Aðsend

Hagfræðingar Íslandsbanka telja meiri líkur en minni að stýrivextir verði aftur hækkaðir þegar peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands birtir næstu vaxta­ákvörðun í ágúst. Þó hafi verðbólguhorfur skánað og bjart sé fram undan.

Í gögnum sem Hagstofan birti í dag kemur fram að tólf mánaða verðbólga mæl­ist nú 7,6% og minnk­ar frá júní­mánuði þegar verðbólg­an mæld­ist 8,9%

„Það sem situr eftir er innlendur kostnaður sem heldur áfram að ýta upp verði á innlendri vöru og þjónustu. Þar gæti orðið kannski lífseigur verðbólguþrýstingur af þeim völdum. En teiknin um bæði innfluttu verðbólguna og íbúðamarkaðinn eru klárlega jákvæð,“ segir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, í samtali við mbl.is.

Áttu von á meiri verðbólgu

Það var tilkynnt í dag að verðbólga hafi lækkað niður í 7,6%. Er þetta eitthvað sem kom ykkur hjá Íslandsbanka á óvart?

„Já, þetta er minni verðbólga en við vorum að spá í júlí. Þar munar mestu að við erum að sjá markaðsverð á íbúðarhúsnæði lækka talsvert á milli mánaða. Við vorum að gera ráð fyrir að reiknuð húsaleiga, sem byggir á þessu markaðsverði, myndi hækka lítillega en sá liður lækkar. En við reyndar áttum von á að það myndi reynast minni verðbólga heldur en við höfðum spáð eftir að tölur um íbúðarverð komu fyrr í vikunni,“ segir Jón og vísar þar til mánaðarskýrslu hag­deild­ar Hús­næðis- og mann­virkja­stofn­un­ar sem mbl.is fjallaði um í gær.

Jákvæðar fréttir fyrir nefndina

Það er núna 23. ágúst sem að peningastefnunefnd birtir næstu vaxtaákvörðun. Teljið þið núna minni líkur á að stýrivextir verði aftur hækkaðir?

„Það er aðeins of snemmt að slá því föstu að vextir verði ekki hækkaðir, sérstaklega þegar það er haft í huga að peningastefnunefnd var ansi afdráttarlaus um líklega þörf á frekari hækkun á síðasta vaxtahækkunarfundi. En auðvitað hljóta þetta að vera jákvæðar fréttir fyrir nefndina,“ segir Jón Bjarki og bætir við:

„Þetta dregur úr vilja nefndarmanna til hækkunar vaxta. Hækkunin í ágúst verður eflaust minni heldur en hún hefði orðið ef við hefðum ekki fengið þessa hagstæðu þróun í verðbólgunni og hægari takt í einkaneyslunni. Það er langlíklegast styttra í toppinn.“

Næsta vaxtaákvörðun peningastefnunefndar verður birt 23. ágúst.
Næsta vaxtaákvörðun peningastefnunefndar verður birt 23. ágúst. mbl.is/Hákon

Þið eigið sem sagt enn von á að peningastefnunefnd muni hækka vexti í ágúst?

„Já, okkur finnst það líklegra en ekki. En hækkunin gæti orðið hófleg, miklu smærra skref heldur en 1,25% eins og þau hækkuðu í maí. Það verður mun hóflegra skref stigið nema eitthvað mikið gerist í millitíðinni. Eins munu þau væntanlega verða hlutlausari í tali um horfurnar fram á við, ekki gefa það eins sterkt í skyn eins og í maí að það sé þörf á frekari hækkun. Þannig að það gæti orðið síðasta vaxtahækkunarskrefið eða að það verði einhver smá viðbótahækkun á síðasta fjórðungi ársins.“

Eins og segir birtir peningastefnunefnd næstu vaxtaákvörðun 23. ágúst. Næstu tvær ákvarðanir verða svo birtar 4. október og 22. nóvember.

Minniháttar fínstillingar eftir

Þannig að það gæti verið að vextir verði hækkaðir í október og nóvember?

„Það veltur á því hvort það verði bakslag í hjöðnuninni og hvort það verði meiri eða minni kraftur í fjárfestingu og neyslu heldur en við erum að gera ráð fyrir. En það hafa vissulega aukist líkurnar á því að það sé mjög stutt í endalok vaxtahækkunarferlisins. Eftir séu minniháttar fínstillingar frekar en einhver afgerandi vaxtahækkunarskref.“

Þannig að það eru bjartir tímar fram undan?

„Já, horfurnar hafa að minnsta kosti skánað hvað varðar bæði verðbólguhorfurnar sjálfar og í framhaldi af því vaxtastigið næstu fjórðunga og misseri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK