Heimkaup berjast gegn úreltum viðskiptaháttum

„Við erum aðeins að pönkast í markaðnum. Af hverju á ég, sem drekk ekki og hef aldrei gert, að borga fyrir áfengisverslun ríkisins? Fyrir utan þá spurningu hvort ríkið sé besti aðilinn til að vera að selja vöru sem á bara að vera í samkeppni og einhver annar getur pottþétt gert á hagkvæmari hátt?“

Þetta segir Gréta María Grétarsdóttir sem tók við starfi framkvæmdastjóra Heimkaupa fyrr á þessu ári. Hún er gestur í nýjasta þætti Dagmála.

Fyrirtækið hefur vakið nokkra athygli fyrir auglýsingar sem vekja athygli á því að fyrirtækið bjóði upp á heimsendingu með áfengi, án þess þó að auglýsa vöruna sem slíka með beinum hætti.

„Svíkið ríkið“

Segir hún skondið að ÁTVR treysti sér ekki til að veita góða þjónustu, þrátt fyrir að sitja nær eitt að markaðnum. Það hafi t.d. birst í áskorun til neytenda fyrir verslunarmannahelgina þar sem fólk var hvatt til þess að mæta snemma í búðirnar.

Sú herferð hins opinbera hafi orðið hvatinn að því að Heimkaup auglýstu undir orðunum „Svíkið ríkið“. Viðurkennir hún að með þessu sé verið að pönkast í stöðnuðu fyrirkomulagi sem hún segir löngu gengið sér til húðar.

Gréta María segir fólk fagna þeirri þjónustu að geta pantað áfengi ásamt öðrum vörum. Tölur fyrirtækisins staðfesti að mjög hátt hlutfall þeirra sem kaupi áfengi þar sé einnig að kaupa matvöru. Það rími við þá stefnu Vínbúða ríkisins að staðsetja sig nærri matvöruverslunum þar sem því verður við komið.

Boða sókn á markaði

Gréta María viðurkennir að Heimkaup hafi tapað verulegum fjármunum á síðustu árum. Hennar verkefni hafi falist í því frá upphafi að snúa rekstrinum við. Það verði gert með aukinni áherslu á tiltekna vöruflokka, ekki síst matvöru, snyrtivörur og áfengi, en einnig samþættingu í rekstri Heimkaupa og annarra rekstrareininga Orkunnar, Extra, 10-11, Lyfjavals og eininga á borð við Brauð & co sem Heimkaup eiga ríflega þriðjungs hlut í.

Hún staðfestir að fyrirtækið hyggist opna þrjár verslanir sem séu nær hinu hefðbundna fyrirkomulagi verslunarreksturs en það sem hrein netverslun hefur byggst á. Hún segir að með þessu sé hægt að fjölga snertiflötum við neytendur sem sé mikilvægt til þess að ná fram stærðarhagkvæmni.

Hún segir Heimkaup ekki ætla að keppa við risana á markaðnum, Bónus og Krónuna, með nákvæmlega þeim meðölum sem þeir beiti á markaðnum. Nálgunin sé önnur og þar felist tækifæri til að sækja fram.

Viðtalið við Grétu Maríu má sjá og heyra hér:

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK