Grundvallarsamkomulag um nýja stjórn í Palestínu

Mahmoud Abbas, forseti Palestínu
Mahmoud Abbas, forseti Palestínu Reuters

Mahmoud Abbas, forseti Palestínu og leiðtogi Fatah hreyfingarinnar, og samningamenn ríkisstjórnar Hamas eru sagðir hafa komist að grundvallarsamkomulagi um nýja ríkisstjórn fylkinganna tveggja. Samkvæmt samkomulaginu myndi Hamas hreyfingin láta af stjórn og stjórn sérfræðinga tæki við.

Mun þá Hama hreyfingin skipa átta ráðherra, en Fatah hreyfingin fjóra, og minni flokkar aðra ráðherra. Hamas, sem vann sigur í síðustu þingkosningum, skipar þá forsætisráðherra en Abbas hefur hvatt Hamas-liða til að skipa óháðan forsætisráðherra í von um að stjórnin hugnist þá frekar Vesturlöndum, sem hættu fjárstuðningi við Palestínumenn að mestu eftir að Hamas komst til valda.

Leiðtogar Hamas hafa enn ekki samþykkt tillögurnar en væntanlega verður tekin ákvörðun á næstu dögum. Abbas og Ismail Haniyeh hittast væntanlega á miðvikudag ef tillögurnar verða samþykktar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert