Norðmenn verða að huga að olíulausri framtíð að mati OECD

Frá Osló.
Frá Osló. mbl.is/Golli

Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, hvetur Norðmenn til þess að huga að efnahagslegri framtíð landsins, með það í huga að olíuna þrjóti og þar með auðinn af olíusölu. Gera þurfi umbætur á lífeyriskerfinu og hvetja til nýsköpunar. Þetta kemur fram í skýrslu OECD sem kom út í dag.

Seðlabanki Noregs verði einnig að hindra að verðbólga vaxi frekar. Noregur er þriðja stærsta olíuútflutningsríki heims, á eftir Rússlandi og Sádí-Arabíu. OECD segir stjórnvöld í Noregi ekki mega gera ráð fyrir því að olían sé óþrjótandi, sú staða geti komið upp að hana þrjóti. Mikill hagvöxtur sé í landinu, atvinnuleysi lítið og lítil verðbólga. Þó megi ekki draga á langinn að gera umbætur á velferðarkerfinu, allt frá styrkjum til öryrkja til ellilífeyrisgreiðslna. Lífeyriskerfið standi ekki nógu styrkum fótum, fólk nái sífellt hærri aldri og geti farið fyrr á eftirlaun og gera verði ráð fyrir því.

Í skýrslu OECD er einnig talið að Norðmenn verði að hækka vexti á útlánum ef laun hækki með sama hraða og verið hefur. Þá megi gera umbætur á vinnumarkaði með því að hindra misnotkun starfsmanna á veikinda- og örorkustyrkjum. Norðmenn eyði of litlu í rannsóknir og þróunarvinnu miðað við önnur sambærileg lönd.

OECD spáir 3,2% hagvexti í Noregi á þessu ári en að hann muni dragast saman og verða 2,7% á næsta ári. 2,6% verðbólgu er spáð á næsta ári en 1,7% á þessu ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert