Kunni ekki textann og þekkti ekki söguna

Yves Leterme, leiðir flokk kristilegra demókrata í Belgíu.
Yves Leterme, leiðir flokk kristilegra demókrata í Belgíu. Reuters

Yves Leterme, sem þykir líklegur sem næsti forsætisráðherra Belga, sýndi ekki sínar bestu hliðar í gær þegar Belgar fögnuðu þjóðhátíðardegi sínum. Leterme vissi ekki af hverju Belgar fögnuðu á þessum tiltekna degi auk þess sem hann kunni ekki þjóðsönginn.

Þegar belgíska ríkissjónvarpið RTBF spurði hann hverju Belgar væru að fagna svaraði Leterme að verið væri að fagna yfirlýsingu stjórnarskrárinnar. Það er hinsvegar ekki svo. Þann 21. júlí ár hvert minnast Belgar þess þegar Leópold I varð konungur í Belgíu árið 1831.

Þá var Leterme spurður hvort hann kynni þjóðsönginn og báðu fréttamenn hann um að syngja nokkrar línur. Leterme brosti og hóf að syngja „Les enfants de la patrie ...," sem er upphafslína franska þjóðsöngsins.

Þegar blaðamaður spurði Leterme hvort hann héldi í raun og veru að þetta væri þjóðsöngur Belga svaraði hann: „Æi, ég veit það ekki.“

Flokkur Leterme, CDV, fékk 30 þingsæti í þingkosningunum sem fram fóru í landinu í síðasta mánuði. Þá veitti konungur Belgíu honum umboð til þess að mynda næstu ríkisstjórn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka