62 ár liðin frá kjarnorkuárásinni á Hiroshima

Fólk gengur með pappírsluktir framan við kjarnorkuhvelfinguna svonefndu í Hiroshima.
Fólk gengur með pappírsluktir framan við kjarnorkuhvelfinguna svonefndu í Hiroshima. AP

Þess verður minnst í Japan í kvöld, að 62 ár eru liðin frá því Bandaríkjaher varpaði kjarnorkusprengju á japönsku borgina Hiroshima. Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, notaði tækifærið til að biðjast afsökunar á ummælum fyrrum varnarmálaráðherra Japans nýlega sem mátti skilja sem svo að kjarnorkuárásin hefði verið réttlætanleg á sínum tíma.

Fumio Kyuma sagði af sér embætti varnarmálaráðherra Japans í júlí í kjölfar ummæla sem hann viðhafði um að kjarnorkuárásir Bandaríkjamanna á tvær japanskar borgir hefðu verið réttlætanlegar þar sem þær hefðu bundið enda á síðari heimsstyrjöldina og komið í veg fyrir að Japansher þyrfti að berjast við Sovétmenn.

Abe ávarpaði í dag hóp fólks, sem lifði sprengingarnar af og baðst afsökunar á því ef ummæli Kyumas hefðu sært þá. „Nú þegar 62 ár eru liðin frá kjarnorkusprengingunum verðum við að veita aukna læknis- og velferðarþjónustu," sagði hann.

Talið er að yfir 140 þúsund manns hafi látið lífið af völdum sprengingarinnar í Hiroshima og um 74 þúsund hafi látist þegar sprengju var varpað á borgina Nagasaki þremur dögum síðar. Um 260 þúsund manns lifðu sprengingarnar af. Margir þeirra fengu alvarlega sjúkdóma, sem raktir voru til geislunar. Japönsk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd fyrir að tregðast við að veita þessu fólki ókeypis læknishjálp.

Eins og gert er árlega munu eftirlifendur og ættingjar þeirra, sem létust í sprengingunni í Hiroshima, taka þátt í minningarathöfn klukkan 8:15 að japönskum tíma í fyrramálið, 6. ágúst. Þá er klukkan 23:15 í kvöld hér á landi. Abe mun flytja ræðu við athöfnina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert