Kínversku leikfangasamtökin sögð hafa vitað að leikföngin hafi verið gölluð

Reuters

Kínverjar vissu af göllunum sem er að finna í þeim leikföngum sem Mattel hefur nú innkallað í stórum stíl. Þetta segir starfsmaður kínversku leikfangasamtakanna.

Í kjölfar nokkurra hneykslismála sem hafa komið upp í tengslum við kínverskar framleiðsluvörur hafa Kínverjar átt erfitt með að sannfæra heiminn um að þeirra vörur séu með öllu hættulausar. Málin hafa verið af ýmsum toga og lúta að skemmdum dýramat, lyfjum, dekkjum leikföngum og tannkremi.

Mattel, sem er stærsta leikfangafyrirtæki Bandaríkjanna, innkallaði í gær milljónir leikfanga, sem framleidd voru í Kína, vegna þeirrar hættu sem börnum stafar af litlum seglum og hættulegri málningu. Mattel hefur sagt að mögulegt sé að fleiri leikföng verði innkölluð á næstunni.

„Við vissum af þessu vandamáli vegna þess að frá því i mars hafa sum leikföng verið innkölluð vegna vandamála með segulstál,“ sagði embættismaður hjá kínversku leikfangasamtökunum sem neitaði að láta nafn síns getið.

Starfsmaðurinn útskýrði hinsvegar ekki hvers vegna svo langur tími hafi liðið þar til gripið var til beinna aðgerða.

Alls hafa 18,2 milljónir leikfanga, sem eru með umræddum seglum, verið innkölluð á heimsvísu. Þar á meðal eru 9,5 milljónir leikfanga í Bandaríkjunum.

Fréttavefur Reuters greindi frá þessu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert