Segja indversk stjórnvöld bera ábyrgð á barnaþrælkun

Samtök sem berjast gegn barnaþrælkun á Indlandi segja að börn, sem seld voru í þrælkunarvinnu í fataverksmiðju sem meðal annars saumar fatnað fyrir Gap, eigi að fá að sameinast fjölskyldum sínum á ný. Jafnframt beri stjórnvöldum skylda að greiða þeim skaðabætur.

Breska dagblaðið Observer greindi frá því í gær að börn allt niður í tíu ára hafi verið seld í þrælavinnu í fataverksmiðju í Nýju-Delhí sem framleiðir fatnað fyrir Gap. Stjórnvöld á Indlandi hafa neitað að tjá sig um málið en frétt Observer hefur vakið upp spurningar um barnaþrælkun á Indlandi.

Að sögn Bhuwan Ribhu, lögfræðings sem starfar fyrir Bachpan Bachao Andolan, samtök sem berjast fyrir bættum kjörum barna, er ábyrgðin hjá indverskum stjórnvöldum. Þau fylgist ekki nægjanlega með því sem fram fer í verksmiðjum í landinu.

Í Observer kom fram að börnin voru frá fátækum héröðum á Indlandi og hafi verið seld í verksmiðjuna af fjölskyldum sínum. Einhver barnanna staðhæfa að þau fái ekki greitt fyrir vinnu sína.

Gap brást strax við fréttinni og gaf út yfirlýsingu um að verksmiðjan sé rekin af undirverktaka og vegna þessa muni ekkert af fatnaðinum vera seldur í verslunum Gap þar sem þetta gangi gegn stefnu fyrirtækisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert