Búddamunkar mótmæla í Kína

Búddamunkar hafa í morgun staðið fyrir mótmælum gegn hersetu Kínverja í Tíbet á þremur stöðum í Gansuhéraði í norðvesturhluta Kína. Útlagastjórn Tíbets, sem hefst við á Indlandi, krafðist þess í morgun að Sameinuðu þjóðirnar grípi tafarlaust til aðgerða vegna mannréttindabrota sem framin hafi verið í Tíbet til að bæla niður mótmæli þar síðustu daga.

Útlagastjórnin sagðist einnig hafa fengið óstaðfestar fréttir um að allt að 100 manns hefðu látið lífið í átökum við kínverska hermenn í Lhasa, höfuðborg Tíbets, í gær. Kínverska fréttastofan Xinhua sagði í gærkvöldi, að 10 manns hefðu látist í átökunum og þar á meðal hefðu nokkrir kaupsýslumenn brunnið til bana.

Búddamunkar hafa farið fyrir mótmælum gegn kínverskum yfirráðum í Tíbet síðustu daga. Vaxandi ofbeldisverk hafa fylgt mótmælunum í Lhasa og hefur þar verið kveikt í verslunum og farartækjum og byssuskot hafa heyrst. Hins vegar hefur verið afar erfitt að fá staðfestar fréttir af stöðu mála. Útlendingar þurfa sérstakt leyfi til að ferðast til Tíbets og blaðamenn fá sjaldan að fara þangað nema þeir séu í strangri gæslu. 

Stjórnvöld í Tíbet hafa gefið mótmælendum frest fram á mánudag til að gefast upp og hætta aðgerðum. 

Kínverskir öryggislögreglumenn skýla sér fyrir steinkasti mótmælenda í Lhasa í …
Kínverskir öryggislögreglumenn skýla sér fyrir steinkasti mótmælenda í Lhasa í gær. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert