Barist strax að loknu vopnahléi

Bardagar hófust á ný á Gaza svæðinu um leið og þriggja klukkustunda löngu vopnahléi, sem komið var á til að hægt væri að flytja mat og lyf til Palestínumanna, lauk. Vaxandi reiði er í garð Ísraelsmanna vegna árásar, sem þeir gerðu á skóla á Gasasvæðinu í gær þar sem um 40 manns létust.

Forseti Frakklands, Nicolas Sarkozy, tilkynnti fyrr í dag að yfirvöld í Ísrael hefðu samþykkt vopnahléstillögu hans og Mubaraks Egyptalandsforseta en þeirri fullyrðingu hafa yfirvöld í Ísrael vísað á bug, að því er segir á fréttavefnum timesonline.

Ísraelsk yfirvöld og heimastjórn Palestínumanna hafa hins vegar sagst munu skoða tillögur Sarkozys og Mubaraks um vopnahlé. Ísraelsmenn ætla að sendi sendinefnd til Egyptalands á næstu dögum. Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna, hefur einnig lýst því yfir að hann muni fara til Egyptalands til viðræðna um vopnahlé.

Reuter
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert