Öryggisráðið deilir um N-Kóreu

Eldflaugarskoti Norður-Kóreumanna mótmælt í Seoul.
Eldflaugarskoti Norður-Kóreumanna mótmælt í Seoul. Reuters

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna gerði hlé á viðræðum um eldflaugarskot Norður-Kóreumanna eftir þriggja klukkustunda fund í kvöld.

Sendiherra Mexíkó, sem fer fyrir öryggisráðinu þennan mánuðinn, sagði að viðræðunum yrði haldið áfram síðar. Stjórnvöld í Bandaríkjunum og Japan segja að eldflaugarskotið sé brot á ályktun öryggisráðsins frá árinu 2006 og vilja að stjórn Norður-Kóreu verði refsað. Talið er þó að Kínverjar og Rússar, sem eru með neitunarvald í ráðinu, hindri að öryggisráðið samþykki refsiaðgerðir gegn kommúnistastjórninni í Norður-Kóreu.

Norður-Kóreumenn segja að markmiðið með eldflaugarskotinu hafi verið að flytja gervihnött í geiminn. Stjórnvöld í Bandaríkjunum segja hins vegar að markmiðið hafi í raun verið að prófa langdræga eldflaug af gerðinni Taepodong sem hægt væri að skjóta frá Norður-Kóreu til Alaska.

Kommúnistastjórnin í Norður-Kóreu tilkynnti í dag að geimskotið hefði heppnast og gervihnötturinn sendi nú út „ódauðlega byltingarsöngva“ í geimnum. Bandarísk yfirvöld neita þessu og segja að eldflaugin og farmur hennar hafi lent í Kyrrahafi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert