Hættuleg vöðvasýning NATO

Dmitri Medvedev, forseti Rússlands, er ekki ánægður með heræfingar á …
Dmitri Medvedev, forseti Rússlands, er ekki ánægður með heræfingar á vegum NATO í Georgíu. RIA NOVOSTI

Um 3.800 rússneskir hermenn eru nú staddir við landamæri Georgíu, í tilefni af heræfingum NATO í landinu undir merkjum Partnership for Peace (PFP). Hermennirnir hafa tekið sér stöðu við landamærin að Abkasíu og Suður-Ossetíu, þar sem átök blossuðu upp á síðasta ári. Uppreisnarmenn í þeim héruðum hafa viljað kljúfa sig frá Georgíu og sameinast Rússlandi. Deutsche Welle greinir frá þessu.

Dmitri Medvedev, forseti Rússlands, hefur sagt að æfingarnar séu hættuleg vöðvasýning af hálfu NATO, en þær hefjast eftir tvo daga og er skipt í tvær mismunandi æfingar. Um 1.000 hermenn frá yfir tíu NATO ríkjum taka þátt í æfingunni.

Fulltrúar NATO halda því hins vegar fram að æfingin sé ekki hluti af neinni stærri áætlun og að ekkert fleira hangi á spýtunni. Halda þeir því fram að æfingin sé ekki einu sinni á vegum NATO, heldur Partnership for Peace. Það gengur út á að ríki utan bandalagsins, eins og t.d. Georgía, geti óskað eftir sameiginlegum æfingum með áherslum á viðfangsefni að eigin vali.

Rússneskir embættismenn segja að sú ákvörðun að láta hermenn fjölmenna við landamærin hafi verið tekin löngu áður en NATO-æfingarnar hafi verið tilkynnar og væri alls ótengd gagnrýni Rússa á þær. Heimildir innan NATO segja hins vegar að Rússum hafi verið boðið að taka þátt í æfingunum, en að þeir hafi ekki viljað það. Þeir hafi hafnað því í tvígang. Svipuð æfing hafi farið fram í Armeníu á síðasta ári og þá hafi nánast enginn veitt því eftirtekt.

NATO og Rússland tóku einungis nýverið aftur upp formleg samskipti, sem var slitið þegar hinir fyrrnefndu ásökuðu stjórnvöld í Moskvu um ofsafengin viðbrögð við árás Georgíumanna á aðskilnaðarsinna í Suður-Ossetíu, sem leiddi til fimm daga átaka á síðasta ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert