Leiðtogafundur í Brussel

Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, með þingmönnum Eystrasaltsríkjanna í …
Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, með þingmönnum Eystrasaltsríkjanna í höfuðstöðvum ESB í Brussel. Reuters

Leiðtogar Evrópusambandslandanna hittast á fundi í Brussel í dag til að ræða framtíð Lissabonsáttmálans og endurmat reglna um fjármálamarakaði. Þá munu leiðtogarnir staðfesta endurráðningu Jose Manuel Barroso, í embætti forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Fundurinn er haldinn í kjölfar Evrópuþingskosninga sem leiddu í ljós töluverða hægrisveiflu og mótstöðu við nánari sameiningu innan sambandsins. Fréttaskýrendur segja það auka þrýsting á framkvæmdastjórn sambandsins að fá fram staðfestingu Lissabonsáttmálans en hann var felldur í þjóðaatkvæðagreiðslu á Írlandi á síðasta ári. 

Munu leiðtogarnir m.a. ræða þau skilyrði sem írska stjórnin hefur sett fyrir því að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um sáttmálann í landinu á ný.

Kröfur Írar fela m.a. í sér að fulltrúum í framkvæmdastjórn sambandsins verði ekki fækkað úr 27 í 18 eins og til hafði staðið, að hernaðarlegt hlutleysi þeirra verði tryggt, þeir hafi áfram full yfirráð í eigin skattamálum og að fóstureyðingar verði áfram ólöglegar í landinu. 

Írar eru ein fárra aðildarþjóða sem ekki hafa enn staðfest sáttmálann en Íhaldsmenn í Bretlandi hafa heitið því að komist þeir til valda muni þeir láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.  

Leiðtogar sambandsins segja sáttmálann nauðsynlegan til þess að sambandið geti starfað með árangursríkum hætti. Hann er niðurstaða samningaviðræðna sem fram fóru í kjölfar þess að Danir höfnuðu Maastricht-sáttmálanum í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1992.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert