Ísraelsmenn deila á Svía

Avigdor Lieberman, utanríkisráðherra Ísraels, er leiðtogi flokks sem er lengst …
Avigdor Lieberman, utanríkisráðherra Ísraels, er leiðtogi flokks sem er lengst til hægri í ísraelskum stjórnmálum. Reuters

Stjórnvöld í Ísrael ætla að senda Svíum formleg mótmæli vegna fréttar, sem birtist í sænska blaðinu Aftonbladet á mánudag þar sem gefið var í skyn, að ísraelskir hermenn dræpu Palestínumenn til að selja úr þeim líffæri.

Í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneyti Ísraels segir, að Avigdor Lieberman, utanríkisráðherra, muni senda Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía, harðorð mótmæli vegna þess að sænska utanríkisráðuneytið hafi ekki tekið undir gagnrýni sendiherra Svía í Ísrael á fréttina. 

„Það er harmað, að sænska utanríkisráðuneytið skuli ekki grípa inn í þegar um er að ræða móðgandi árásir á gyðinga, sem minnir á afstöðu Svía í síðari heimsstyrjöldinni þegar þeir sátu einnig með hendur í skauti," er haft eftir Lieberman í yfirlýsingunni. „Frelsi fjölmiðla þýðir að þeir hafa frelsi til að prenta sannleikann en ekki lygar."

Blaðafréttin, sem deilt er um, var skrifuð af lausamanninum Donald Boström. Hann sagði sagði frá fundi með ættingjum Palestínumanns, sem lést í átökum við ísraelska hermenn. Sögðust ættingjarnir telja að líffæri hefðu verið tekin úr manninum þegar líki hans var skilað nokkrum dögum síðar.

Elisabet Borsiin Bonnier, sendiherra Svía í Ísrael, gagnrýndi greinina harðlega á heimasíðu sendiráðsins í gær og sagði að þær ásakanir, sem kæmu þar fram væru afar ógeðfelldar. Sænska utanríkisráðuneytið vildi í dag ekki tjá sig um ummæli sendiherrans en í kvöld hefur AFP fréttastofan eftir talsmanni ráðuneytisins, að sendiráðið í Ísrael hljóti að hafa brugðist við í samræmi við almenningsálitið í Ísrael.

Í yfirlýsingu ísraelska utanríkisráðuneytisins segir, að Lieberman hafi falið ráðuneytinu að kanna hvort hægt sé að banna fulltrúa Aftonbladet að starfa í Ísrael.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert