Yfirmaður Kommúnistaflokksins í Urumqi rekinn

Yfirmaður Kommúnistaflokksins í Urumqi í Xinjiang héraði í Kína, Li Zhi, hefur verið rekinn frá völdum, samkvæmt frétt Xinhua fréttastofunni. Róstusamt hefur verið í borginni undanfarna dag en ekki er gefin nein opinber skýring á brottvikningu Li Zhi en talið er að það tengist óróanum í borginni undanfarna mánuði.

Samkvæmt frétt BBC hafa fimm hið minnsta látist í átökum í Urumqi undanfarna daga. Mikil öryggisgæsla er í borginni en hátt í 200 manns létu lífið í átökum í kjölfar mótmælaaðgerða Uighur-manna þar í júlí.

Mikil spenna er enn á milli Han-Kínverja Uighur-manna í borginni en það eru Han-Kínverjar sem standa fyrir mótmælunum nú. Þeir krefjast þess einnig að réttarhöldum í málum þeirra sem handteknir voru í kjölfar átakanna í júlí, verði hraðað.

Heilbrigðisyfirvöld í borginni segja að hátt í 500 manns, flestir þeirra Han-Kínverjar, hafi leitað til læknis vegna sprautunálaárása á undanförnum vikum. 89 þeirra hafi borið greinileg merki eftir sprautunálar.

Fréttaritarar sem BBC hefur rætt við segja að þúsundir Han Kínverja hafi tekið þátt í mótmælum vegna sprautunálaárásanna og segja þeir að yfirvöld í héraðinu hafi ekki gætt öryggis þeirra nægjanlega.

Íbúar Xinjiang-héraðs eru um 20 milljónir og eru 45% íbúanna Uighur-menn, 40% Han-Kínverjar. Uighur-menn eru múslímar og eru í meirihluta í héraðinu þar sem áður var Austur-Túrkistan. Þegar kommúnistar með Maó í broddi fylkingar tóku völdin árið 1949 innlimuðu þeir Austur-Túrkistan í Kína og hefur svæðið síðan verið skilgreint sem Xinjiang-hérað.

Frá Urumqi-borg
Frá Urumqi-borg Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert