Neyðarástand á Papúa Nýju-Gíneu vegna farsótta

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir á Papúa Nýju-Gíneu en þar geisa nú að minnsta þrjár skæðar farsóttir, kólera, inflúensa og blóðkreppusótt. Yfir 100 manns hafa látist.

Heilbrigðisyfirvöld hafa lokað skólum og mörkuðum, lagt áherslu á hreinlæti og hvatt fólk til að halda sig heima.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, og stjórnvöld í Ástralíu hafa boðið fram aðstoð vegna farsóttanna og sent hjálpargögn. Allt kapp er lagt á að hindra útbreiðslu farsóttanna en þær eru nú að mestu bundnar við þrjú héruð í landinu.

Að minnsta kosti 20 manns hafa látist af völdum kóleru og á þriðja hundrað eru smitaðir en kólera hefur ekki látið á sér kræla í Papúa Nýju-Gíneu í áratugi.

Inflúensufaraldurinn í landinu hefur lagt 51 að velli og yfir 3.000 eru smitaðir.

Að minnsta kosti 29 dauðsföll eru staðfest af völdum blóðkreppusóttar.

Eigil Sorensen, fulltrúi WHO í Papúa Nýju-Gíneu segir ástandið alvarlegt.

„Við höfum áhyggjur þar sem heilbrigðiskerfi landsins er veikburða. Nú á eftir að koma í ljós hvort það ræður við ástandið,“ segir Sorensen.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert