Fréttaskýring: Nóbelsverðlaun Obama umdeild

Barack Obama.
Barack Obama. Reuters

Skiptar skoðanir eru meðal fréttaskýrenda um þá ákvörðun norska Stórþingsins að veita Barack Obama, Bandaríkjaforseta, friðarverðlaun Nóbels í ár. Ljóst þykir að verðlaunanefndin vill með þessu hvetja Obama til dáða í baráttu sinni fyrir friði og kjarnorkuvopnalausum heimi en sumir telja að verðlaunin kunni að vinna gegn forsetanum.

Paul Rogers, prófessor í Bradfordháskóla í Bretlandi, sagði að þótt þetta væri óvenjuleg ákvörðun hjá Nóbelnefndinni væri hún dæmi um það þegar nefndin reyndi að leggja sitt að mörkum við að koma verkefnum áleiðis.

„Þetta kom vissulega á óvart en Nóbelnefndin hefur oft veitt verðlaun fyrir það sem kalla má feril, hluti sem eru í vinnslu, frekar en verkefni sem er lokið.

Það má minna á að Nelson Mandela og Frederik De Klerk fengu verðlaunin í byrjun 10. áratugarins þótt ekki væri búið að afnema aðskilnaðarstefnuna í Suður-Afríku," sagði Rogers við AFP fréttastofuna.

Nóbelnefndin vísaði m.a. í rökstuðningi sínum í markmið, sem Obama hefur sett fram, um kjarnorkuvopnalausan heim og fyrir að reyna að bæta samskipti vesturveldanna og íslamska heimsins.

„Hann hefur framfylgt þessari stefnu að sumu leyti með því að hætta við að setja upp eldflaugavarnakerfi í austurhluta Evrópu og tilboði til Rússa um nýjar afvopnunarviðræður. En það er auðvitað hætta á að þetta gæti haft öfug áhrif. Ég býst m.a. við að mjög hörð gagnrýni komi á ákvörðunina um Nóbelsverðlaunin úr röðum repúblikana í Bandaríkjunum," sagði Rogers.  

Deilurnar eiga að vera um Nóbelnefndina - ekki Obama

Dana Allen, sérfræðingur hjá International Institute for Strategic Studies í Lundúnum, sagði að auðvelt væri að gagnrýna ákvörðun um að veita friðarverðlaunin manni, sem aðeins hefur gegnt forsetaembætti í 10 mánuði. 

„Jafnvel fólk, sem styður Obama og markmið hans mun eiga auðvelt með að gera gys að þessu. Meðan á forsetakosningabaráttunni stóð voru aðstoðarmenn hans mjög áhyggjufullir vegna ásakana um að verið væri að búa til stórstjörnu úr Obama. Því verður það án efa umdeilt, að hann fær friðarverðlaunin svona snemma áður en hann hefur áorkað nokkru. En þær deilur eiga að snúast um Nóbelnefndina, ekki Obama," sagði Allen.

Hann sagði að það væri hins vegar mikilvægt að Obama hefði breytt stefnu Bandaríkjanna með afgerandi hætti. „Hann hefur lýst því yfir að markmið Bandaríkjanna séu afvopnun og kjarnorkuvopnalaus heimur og það skiptir máli. Þótt það markmið hafi verið sett fram í fyrsta afvopnunarsáttmálanum hefur almennt verið talið, að Bandaríkin tækju þá skuldbindingu ekki alvarlega."

Stórfurðuleg ákvörðun

Iain Martin, aðstoðarritstjóri Wall Street Journal Europe, sagði að ákvörðun Nóbelnefndarinnar væri stórfurðuleg og ekki sé ljóst hvers vegna Obama hlýtur verðlaunin.

„Fyrir að semja einhverskonar frið við Hillary Clinton? Fyrir að hætta við eldflaugavarnakerfið og gleðja Írana? Fyrir að undirbúa stóraukinn hernað í Afganistan?" spyr Martin á vefsíðu blaðsins.

„Auðvitað hefur það verið hefðbundinn gangur mála, að friðarverðlaunahafar stunda friðflytjendastörf sín fyrst og fá síðan verðlaunin þegar þeir hafa náð einhverjum árangri. En þessi nýbreytni ýtir til hliðar slíkum gamaldags hugmyndum. Hún sýnir að leiðtogi getur nú hlotið friðarverðlaun fyrir að lýsa því yfir að hann vonist til að friður verði einhvern tímann í framtíðinni. Þann þarf ekki sjálfur að ná fram friði heldur aðeins hafa væntingar um frið. Frábært!" segir Martin. 

Thorbjørn Jagland, formaður norsku Nóbelnefndarinnar, með mynd af Barack Obama.
Thorbjørn Jagland, formaður norsku Nóbelnefndarinnar, með mynd af Barack Obama. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert