Farþegar vísuðu flugmanni til vegar

Aappillatoq er eitt afskekktasta þorpið á Grænlandi.
Aappillatoq er eitt afskekktasta þorpið á Grænlandi. Jón Viðar Sigurðsson

Air Greenland hefur hafið rannsókn á hvað olli því að þyrluflugmaður villtist í áætlunarflugi. Farþegarnir þurftu að koma honum til hjálpar svo hann rataði á áfangastað, að sögn vefsíðu grænlenska útvarpsins.

Venjulega tekur þyrluflug frá Nanortalik til Aappilattoq í Suður-Grænlandi um 20 mínútur. Flugferðin sem hér um ræðir varaði hins vegar í meira en klukkustund. Flugmaður þyrlunnar i umræddri ferð fór villur vegar. Loks lenti hann þyrlunni og fór að skoða landakort. Þá komu farþegar flugmanninum til hjálpar.

Erninnguaq Semsen frá Aappilattoq var á meðal fimm farþega. Hann kvaðst hafa furðað sig á því hvers vegna flugmaðurinn flaug í norðurátt í stað þess að fljúga suður á bóginn. Semsen kvaðst hafa álitið að flugmaðurinn ætlaði aðra leið en venjulega.

„Við flugum inn á milli hárra fjalla án þess að átta okkur á því hvar við vorum. Svo kom ég auga á Kangikitsoq sem er í botni Aappilattoq fjarðarin,“ sagði Semsen í samtali við grænlenska útvarpið.

Semsen gerði samferðarfólki sínu grein fyrir hvar þau voru stödd. „Við flugum fram og til baka og svo fór flugmaðurinn að fljúga til baka, í þveröfuga átt við áfangastaðinn. Við vorum mitt á milli  Nanortalik og Aappilattoq þegar flugmaðurinn lenti og fór að skoða landakortið. Þá fyrst vorum við viss um að hann væri villtur. Við bentum honum á hvar við værum og sýndum hvert við ættum að fara,“ sagði Semsen.

Hann sagði ferðina hafa verið mjög óþægilega. Þau hafi flogið inn á milli 2.000 metra hárra fjalla. Einn farþeganna kastaði upp þegar þau lentu á áfangastað. 

Frá Nanortalik í Grænlandi.
Frá Nanortalik í Grænlandi.
Venjulega tekur um 20 mínútur að fljúga með þyrlu frá …
Venjulega tekur um 20 mínútur að fljúga með þyrlu frá Nanortalik til Appilattoq. Jón Viðar Sigurðsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert