Hrun í sölu Kúbuvindla

Mörgum þykir mikil nautn að reykja Kúbuvindla að lokinni fyrirtaks …
Mörgum þykir mikil nautn að reykja Kúbuvindla að lokinni fyrirtaks máltíð.

Stórlega hefur dregið úr útflutningsverðmæti á vindlum frá Kúbu á síðustu árum en það er nú um þrefalt minna en árið 2006. Reykingabönn á erlendum mörkuðum og skortur á fé til ræktunar eiga sinn þátt í samdrættinum.

Fjallað er um málið á vef breska dagblaðsins Guardian en þar segir að fækkun flugfarþega eigi hér hlut að máli en þeir eru sagðir standa fyrir um þriðjungi sölunnar.

Fjárskortur hefur sem fyrr segir dregið úr ræktun en í fyrra var 30% minna ræktarland notað undir vindlaframleiðsluna en árið áður.

Þá eigi reykingabönn, þar með talið á Spáni, sinn þátt í að útflutningurinn hefur dregist svo verulega saman.

Vikið er að uppskerunni í ár með þeim orðum að hún sé aðeins 22,4 milljónir laufa og því 14% minni en í fyrra, að því er fram komi í nýjum tölum stjórnvalda. Minni framleiðsla eigi þátt í að útflutningsverðmætið hafi aðeins verið 73 milljónir Bandaríkjadala 2009, samanborið við 217 milljónir dala árið 2006.

Að lokum er vitnað til þess að velta vindlafyrirtækisins Habanos SA, sem sé undir sameiginlegri stjórn Kúbu og Imperial Tobacco Group, hafi dregist saman um 8% í fyrra, eða til jafns við samdráttinn í sölu kúbverskra vindla á Bretlandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert