Reyndu að gera sér fleka

Norðmennirnir þrír, þeir Jonas Reiestad, Magnar Haar og Tormod Aniksdal …
Norðmennirnir þrír, þeir Jonas Reiestad, Magnar Haar og Tormod Aniksdal eru allir vanir útivistarmenn.

Lögreglan í Nuuk á Grænlandi segir ýmislegt benda til þess að Norðmennirnir sem leitað er að í Paradísardal við Syðri Straumfjörð á Grænlandi hafi reynt að gera sér fleka í þeim tilgangi að komast yfir ána sem rennur um dalinn.

Greint var frá því í gær að lögregla hafi fundið lík sem talið er vera af einum mannanna. Samkvæmt norskum fjölmiðlum hafa enn ekki verið borin kennsl á líkið.

Á fréttavef norska dagblaðsins VG er haft eftir Morten Nielsen, aðstoðarlögreglustjóra í Nuuk, að fundist hafi dýnur og annar efniviður sem talið er að mennirnir hafi notað til að gera sér fleka. 

Leit að mönnunum hófst á nýjan leik í morgun eftir að hlé var gert í nótt vegna myrkurs. Dagurinn í dag er sá þriðji sem leitað er að mönnunum. Leit hófst á laugardaginn í kjölfar þess að mennirnir skiluðu sér ekki á tilsettum tíma á föstudaginn. Leitin hefur í auknum mæli beinst að ánni sem mennirnir voru að veiða í.

Lögregla og björgunarflokkar notast bæði við þyrlur og leitarhunda við leitina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert