Óttast að Ashtiani verði grýtt til bana á morgun

Mynd af Sakineh Mohammadi-Ashtiani,
Mynd af Sakineh Mohammadi-Ashtiani, Reuters

Franskir mannréttindafrömuðir óttast að íranska konan Sakineh Mohammadi-Ashtiani verði grýtt til bana á morgun en hún hefur verið dæmd til dauða fyrir hjúskaparbrot. Stuðningsmenn hennar ætla að koma saman fyrir utan sendiráð Írans síðar í dag í París og mótmæla því sem þeir telja ómannúðlega refsingu gagnvart þessari 43 ára tveggja barna móður.

Sakineh Mohammadi-Ashtiani verður jafnvel tekin af lífi á morgun, segir í yfirlýsingu á vef franska tímaritsins, La Regle du Jeu, í dag en það er rekið af einum frægasta núlifandi heimspeking Evrópu, Bernard-Henri Levy.

Segja stuðningsmenn Ashtiani í Frakklandi að Hæstiréttur í Teheran hafi sent bréf til stofnunar sem sér um að dómum sé framfylgt í  Tabriz fangelsinu, þar sem hún er í haldi, að  Ashtiani skuli tekin af lífi sem fyrst. 

„Þar sem dauðadómum er framfylgt á miðvikudögum þá getum við ekki verið annað skelfilega áhyggjufull fyrir hönd Sakineh í dag," segir í tilkynningu frá stuðningsmönnum Ashtiani.

Ashtiani var dæmd til dauða í tveimur aðskildum dómsmálum af tveimur dómsstólum í borginni Tabriz á árinu 2006. Sá fyrri hljóðaði upp á að hún skyldi hengd fyrir að hafa átt aðild að morði á eiginmanni sínum. Þeim dómi var síðar breytt í tíu ára fangelsi af áfrýjunardómstól árið 2007.

En síðari dóminn, að vera grýtt til bana, fyrir hjúskaparbrot, með manninum sem síðar var dæmdur fyrir morðið á eiginmanni hennar, var staðfestur síðar það sama ár.

Stjórnvöld í Íran hafa haldið því fram að ákveðið hafi verið að fresta því að grýta hana til bana vegna þrýstings erlendis frá, einkum í Frakklandi, Ítalíu og páfagarði. Hins vegar sagði talsmaður íranska utanríkisráðuneytisins þann 28. september að ferli málsins væri ekki lokið í dómskerfinu og lokadómur yrði ekki kveðinn upp fyrr að því loknu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert