Trump íhugar forsetaframboð

Donald Trump, þegar hann var útnefndur heiðursdoktor í Robert Gordon …
Donald Trump, þegar hann var útnefndur heiðursdoktor í Robert Gordon háskólanum í Aberdeen á Skotlandi í haust. Reuters

Bandaríski auðkýfingurinn Donald Trump, sem einkum hefur auðgast á fasteignaviðskiptum, hefur nú augastað á eftirsóttri fasteign: Hvíta húsinu í Washington. Hann sagðist í dag íhuga að bjóða sig fram í forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2012. 

Trump, sem m.a. leikur aðalhlutverkið í eigin raunveruleikasjónvarpsþætti, Lærlingnum, sagði í þætti George Stephanopoulos á ABC sjónvarpsstöðinni, að hann væri alvarlega að íhuga að bjóða sig fram fyrir Repúblikanaflokkinn og gæti vel eytt 200 milljónum dala af eigin fé í kosningabaráttuna, jafnvirði 22 milljarða króna.

„Það gæti verið gaman vegna þess að ég vil að þróunin í þessu landi verði jákvæð," sagði Trump. „Ég mun væntanlega taka ákvörðun í júní."  

Hann sagði, að mikilvægt verk, sem biði forseta, væri að takast á við kínverska hagkerfið. Sagði hann að Kínverjar kæmust nú upp með að  hagræða gengi gjaldmiðils síns, Bandaríkjunum til tjóns. 

„Það er ekki borin virðing fyrir þessu landi," sagði hann. „Ég á viðskipti við marga frá Kína og þeir hlægja að okkur. Þeim finnst við vera kjánar. Og að leiðtogar okkar séu einnig nánast kjánar. Þeir trúa því ekki hvað þeir komast upp með."

Trump hefur áður sent upp „veðurbelgi" til að kanna hvort hann njóti stuðnings í forsetaframboði. 

Ákveði Trump að bjóða sig fram gæti hann þurft að keppa við aðra raunveruleikasjónvarpsstjörnu, Söruh Palin, fyrrum ríkisstjóra Alaska og varaforsetframbjóðanda, sem nú er í aðalhlutverki í sjónvarpsþætti um Alaska.  

„Ég myndi takast á við hana. Mér líkar vel við hana en ég myndi slást við hana," sagði Trump. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert