Bush aflýsir ferð til Sviss

George Bush, fyrrum forseti Bandaríkjanna.
George Bush, fyrrum forseti Bandaríkjanna. AP

Heimsókn George W. Bush, fyrrum Bandaríkjaforseta, til Sviss hefur verið aflýst vegna boðaðra mótmæla og hættu á óróa. Bush hugðist fara til Sviss til að vera viðstaddur fjáröflunarsamkomu á vegum Keren Hayessod-samtakanna. Markmið samtakanna er að afla fjár fyrir Ísraelsríki.

Robert Equey, lögmaður Keren Hayessod-samtakanna, sagði við blaðið  Tribune de Geneve, að skipuleggjendurnir gætu ekki borið ábyrgð á því að hlutirnir færu úr böndunum en hvatt hefur verið til mótmæla í tengslum við heimsókn Bush. 

Heimssamtökin gegn pyndingum (e. World Organisation Against Torture) óskuðu eftir því í vikunni að svissnesk yfirvöld hæfu rannsókn á ætluðum pyndingum í stjórnartíð Bush kæmi hann til landsins. Bentu þau meðal annars á þær skuldbindingar sem Sviss hefur gengist undir samkvæmt landslögum og sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum.

Önnur samtök af svipuðum meiði í Sviss hafa einnig látið að sér kveða, meðal annars vegna ætlaðra stríðsglæpa í Írak og glæpa gegn mannúð sem þau telja Bush vera ábyrgan fyrir.

Í endurminningum sínum, sem komu út á síðasta ári, fullyrti Bush að tekist hefði að koma í veg fyrir hryðjuverkaárásir á Bandaríkin og Bretland með því að beita svonefndum vatnspyntingum (e. waterboarding) við yfirheyrslur.  

Þá staðfesti hann í viðtali við breska blaðið The Times að hann hefði heimilað að beitt yrði óvenjulegum aðferðum við að yfirheyra Khalid Sheikh Mohammed, sem talinn er hafa skipulagt hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september 2001.

Equey sagði, að það hefði ekki falist nein ögrun í því að bjóða Bush til fjáröflunarveislunnar. Sagði hann að fyrri gestir stofnunarinnar væru meðal annars Bill Clinton, fyrrum Bandaríkjaforseti, Al Gore, fyrrum varaforseti Bandaríkjanna og  Rudolf Giuliani, fyrrverandi borgarstjóri New York.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert