Úrvalssveitin sem myrti Bin Laden

Úrvalssveit bandarískra sérsveitarmanna myrti Osama bin Laden.
Úrvalssveit bandarískra sérsveitarmanna myrti Osama bin Laden. Reuters

Bandarísku sérsveitarmennirnir sem réðust inn í húsið sem Osama bin Laden dvaldist í og myrtu hann voru að sögn meðlimir í hóp sem nefnist „Team Six“; sérstakri úrvalssveit meðal bandarískra sérsveitarmanna.

Sveitin er svo einstök að bandaríski herinn hefur ekki viðurkennt opinberlega að hún sé til. „Team Six“ hefur þó komið fyrir í mörgum kvikmyndum og tölvuleikjum. 

Talsmenn Hvíta hússins og bandarísku leyniþjónustunnar hafa ekki staðfest að meðlimir „Team Six“ hafi ráðist inn í hús bin Laden en þó hafa ráðamenn viðurkennt að sérsveitarmenn hafi verið þar á ferð. 

Sveitin var sett á laggir árið 1980 eftir misheppnaða tilraun til að bjarga bandarískum gíslum í sendiráðinu í Íran. Í upphafi voru meðlimir sveitarinnar um 90 talsins en talið er að þeir séu um 2-300 í dag. 

Meðlimir eru valdir sérstaklega úr 2.300 manna hópi sérsveitarmanna bandaríska sjóhersins. Sérsveitarmenn bandaríska sjóhersins ganga í gegnum fimm ára umfangsmikla og erfiða þjálfun sem meðal annars felur í sér meðhöndlun sprengiefna neðansjávar og fallhlífarstökk úr mikilli hæð.

Flestir þeirra sem byrja í þjálfuninni gefast upp í ferlinu enda þykir þjálfunin reyna gríðarlega á líkama og sál manna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert