Fréttaskýring: Gildra bótakerfis og slök menntun

Reuters

Leiðtogar Íhaldsflokksins og Verkamannaflokksins í Bretlandi, Ed Miliband og David Cameron, eru ekki sammála um það hvað hafi valdið óeirðunum fyrir skemmstu þótt báðir fordæmi athæfið. Cameron segir að um sé að ræða siðferðislegt hrun. „Félagsleg vandamál, sem hafa grafið um sig áratugum saman, hafa sprungið framan í okkur,“ segir forsætisráðherrann og heitir endurbótum. Miliband sakar hann um „ódýr brögð“ og aðferðir sem ekki hafi verið hugsaðar til enda.

Harriet Sergeant segir í grein í ritinu Spectator frá afbrotagengjum í Brixton og víðar í landinu en hún safnaði fyrir þrem árum upplýsingum um þessi vandamál fyrir hugveitu. Hún fer hörðum orðum um stefnu Verkamannaflokksins og segir óeirðirnar beinlínis vera afleiðinguna af stefnu flokksins þegar hann var við völd.

Og margt finnst henni fáránlegt, t.d. umvandanir stjórnmálamanna sem hvetji nú foreldra til að koma í veg fyrir að unglingarnir séu að þvælast úti á kvöldin. Þá gleymist að óeirðaseggirnir hafi yfirleitt lítinn sem engan stuðning frá foreldrum eða öðrum fullorðnum, hvatningin sé út í hött. Hún minnir á að hlutfall einstæðra mæðra á táningsaldri sé nú hærra í Bretlandi en í nokkru öðru Evrópuríki. Skýringin sé ekki síst að í tíð Verkamannaflokksins 1997-2010 hafi margvíslegir styrkir til einstæðra mæðra með tvö börn verið hækkaðir um alls 85%.

Stúlkurnar verði ófrískar, segir Sergeant, þær sjái ekki aðra tekjuleið. „Ríkið hefur tekið að sér hlutverk bæði eiginmanns og föður og allt of ljóst að því hefur mistekist hvort tveggja.“

Mikið um ólæsi

Sergeant nefnir einnig tölur um læsi. „Full 63% af 14 ára hvítum strákum úr verkamannastétt og liðlega helmingur svartra 14 ára stráka af Karíbahafsættum eru með lestrargetu á við sjö ára börn eða enn minni,“ segir hún.

Strákarnir gangi í glæpaflokka, það sé eina leiðin sem þeir sjái út úr ógöngunum. Þeir séu auðmýktir í æsku, annaðhvort gefist þeir upp á skólanum eða séu reknir og hefur hún eftir þeim að kennararnir hafi engan áhuga á að hjálpa þeim eða reyna að leita svara við því hvað sé að, hugsi bara um að hirða kaupið sitt. Strákarnir komi bara í skólann til að selja fíkniefni eða þýfi.

„Ólæsi er lífstíðardómur,“ segir Sergeant og minnir á að helmingur fanga sé með lestrargetu er svari til 11 ára aldurs eða minna.

Hörð samkeppni

Fjölgun innflytjenda hefur grafið enn undan stöðu þeirra sem þegar stóðu illa að vígi á vinnumarkaðnum í Bretlandi. Í valdatíð Verkamannaflokksins 1997-2010 voru skapaðar 1,8 milljónir nýrra starfa, að sögn bresku Hagstofunnar. Innflytjendur hrepptu 99% þeirra en margir þeirra hafa fyrir einhverja menntun og starfsþjálfun.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert