Norðmenn koma illa fram við sígauna

Rómafólk á ferðinni.
Rómafólk á ferðinni. Reuters

Í Noregi er komið fram við innflytjendur af Róma-uppruna eins og hvert annað sorp. Þetta segir talsmaður norskra samtaka gegn kynþáttahatri (LDO), Sunniva Ørstavik. Hún segir að betlurum af erlendum uppruna sé vísað burt af flestum hjálparstofnunum í Ósló.

„Við höfum áhyggjur af því hver gætir réttar þeirra. Það er ástæða til að telja að Rómafólk sé sérstaklega berskjaldað fyrir mismunun og fordómum í Noregi," hefur Aftenposten eftir Ørstavik. Blaðið segir frá því að Fattighuset svonefnda í Ósló, hjálparstofnun sem m.a. deilir út mat og fötum til fátækra, neiti að aðstoða Róma-fólk. Þetta segir Ørstavik að sé ólögleg mismunun.

Ekki nóg með það, heldur sé hugsanlegt að framkoma Norðmanna við Róma-fólk sé brot á mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, en þar er kveðið á um að allir eigi rétt á mat og þaki yfir höfuðið. LDO samtökin segja að yfirvöld séu að bregðast skyldum sínum. Það sé jafnframt áhyggjuefni að norskur almenningur, sem og stjórnmálamenn og yfirvöld, virðist telja mismunun gagnvart Róma-fólki sjálfsagða og eðlilega.

Rómafólk, eða sígaunar, hefur verið talsvert í umræðunni í Noregi undanfarið en talið er að fjöldi sígaunabarna og -ungmenna hafist við á götum Óslóar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert