Monti fer sjálfur með efnahagsmál

Mario Monti, forsætisráðherra Ítalíu.
Mario Monti, forsætisráðherra Ítalíu. Reuters

Mario Monti, nýr forsætisráðherra Ítalíu, ætlar sjálfur að hafa yfirumsjón með efnahagsmálum í nýrri ríkisstjórn Ítalíu. Ráðherralistinn var birtur í dag.

Monti er fyrrverandi fulltrúi í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Viðræður um skipan nýju stjórnarinnar hafa staðið í nokkra daga, en stjórnin er aðallega skipuð embættismönnum.

Monti tekur við erfiðu verkefni. Skuldir Ítalíu nema um 1.900 millörðum evra. Landið þarf að endurfjármagna um 300 milljarða evra á næsta ári og er þá ekki reikna með að landið bæti við skuldir sínar. Þess má geta í þessu sambandið að björgunarsjóðurinn sem ESB er að reyna að koma á fót verður um 430 milljarðar að stærð.

Stjórnvöld á Ítalíu þurfa því með einhverjum hætti að fá einhvern til að lána landinu þessa 300 milljarða á næsta ári. Þeir sem eru tilbúnir að lána krefjast hins vegar þess að fá upp undir 7% vexti af lánunum. Sérfræðingar segja að ef vextir fari upp fyrir 7% verði ríkisfjármálavandi Ítalíu óviðráðanlegur vegna þess að þá fari svo hátt hlutfall gjalda ríkissjóðs í fjármagnskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert