Evrópuríkin hafa náð góðum árangri

Mario Draghi, bankastjóri Seðlabanka Evrópu, sagði að framúrskarandi árangur hefði …
Mario Draghi, bankastjóri Seðlabanka Evrópu, sagði að framúrskarandi árangur hefði náðst í baráttunni við skuldavandann. Reuters

Mario Draghi, bankastjóri Seðlabanka Evrópu, sagði í dag að framúrskarandi árangur hefði náðst í þá átt að leysa skuldavandann á evrusvæðinu og Timothy Geithner, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, hrósaði þeirri viðleitni sem hefði verið sýnd og sagði að nýlegar aðgerðir hefðu aukið trúverðugleika gjaldmiðilsins.

Báðir voru þeir viðstaddir ráðstefnu Alþjóðlegu efnahagsstofnunarinnar í Davos en þar sagði Draghi m.a. að tekið hefði verið á mörgum þeim atriðum sem lágu til grundvallar fjármálakreppunni fyrir fjórum árum en hvatti ríkisstjórnir til að vinna hraðar í því að hrinda aðgerðaráætlunum af stað.

„Sá árangur sem hefur unnist er framúrskarandi,“ sagði Draghi. „Ef þú berð daginn í dag saman við hvernig þetta var fyrir fimm mánuðum þá er evrusvæðið annar heimur,“ sagði hann.

Draghi sagði að sá efnahagssáttmáli sem flest Evrópuríki ynnu nú að væri bráðnauðsynlegur til þess að leysa skuldavandann og hrósaði ríkisstjórnum fyrir að sýna vilja til að gefa eftir af sjálfræði sínu í þeim málum.

Draghi sagði einnig að skortur á reglugerðum væri ein meginástæða kreppunnar ásamt undirliggjandi galla í bankakerfinu.

„Margt jákvætt hefur gerst á markaðnum. Eigið fé banka er meira, skuldir minni, og þeir upp að vissu marki ónæmari fyrir þeim afbrigilega hvata sem einkenndi kreppuna,“ sagði Draghi.

Bandaríski fjármálaráðherrann sagði að þrjár ríkisstjórnir Evrópu, á Ítalíu, Spáni og Grikklandi, hefðu gripið til sársaukafullra aðgerða og að Seðlabanki Evrópu hefði gert það sem gera þurfti. Þannig hefðu verið lagðar undirstöður að trúverðugra kerfi.

Geithner sagði þó að Evrópa þyrfti að reisa öflugri og trúverðugri eldvegg til að hindra útbreiðslu vandans og gaf í skyn að Bandaríkin og önnur ríki gætu lagt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til fjármuni til aðstoðar evrusvæðinu ef það yrði gert.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert