Eiginmaður bjó við ógnarstjórn í 41 ár

Frá Storvik-flóa í Salten-héraði í Norður-Noregi.
Frá Storvik-flóa í Salten-héraði í Norður-Noregi. Ljósmynd/Lasse Karstensen

72 ára gömul norsk kona hefur verið dæmd í þriggja ára fangelsi fyrir að hafa beitt eiginmann sinn ítrekuðu andlegu og líkamlegu ofbeldi í rúma fjóra áratugi. Dómstóll í Salten-héraði í norðurhluta Noregs komst að sameiginlegri niðurstöðu í málinu. Fréttavefur norska dagblaðsins Avisa Nordland segir frá þessu.

Fram kemur í dómnum að ofbeldið hafi í það minnsta staðið yfir frá árinu 1969 og allt þar til eiginmaður konunnar lést árið 2010. Hugsanlegt sé að það hafi átt sér stað allt frá því að fólkið gekk í hjónaband árið 1961. Ekkert benti til þess að maðurinn hafi á einhvern hátt ögrað konunni eða gert nokkuð sem gefið hafi henni tilefni fyrir ofbeldinu.

Þá segir að konan hafi oft og iðulega ráðist á eiginmann sinn að börnum þeirra, sem nú eru uppkomin, viðstöddum en þau báru vitni gegn móður sinni fyrir dómstólnum. Málið kom til kasta lögreglu eftir að konan kærði eiginmann sinn fyrir áreiti en þegar lögreglan fór að rannsaka málið beindist rannsóknin að henni í staðinn.

Í dómnum segir ennfremur að maðurinn hafi í 41 ár búið við stöðuga ógnarstjórn sem byggst hafi á samfelldri óvissu og hræðslu við að verða beittur ofbeldi og öðru áreiti.

Konan var meðal annars ákærð fyrir að neyða eiginmann sinn til þess að búa í kjallara íbúðarhúss þeirra, lemja hann með járnstöng og ýmsum innanstokksmunum, neita honum um aðgang að eldhúsi, matvælum, baðherbergi og salerni. Sömuleiðis fyrir að eyðileggja föt hans, henda póstinum hans, taka af honum lyf sem hann þurfti að taka inn og neita honum um afnot af síma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert