Völdu Romney í stað Obama og öfugt

AFP

Talsvert hefur verið um kvartanir einstakra kjósenda í Bandaríkjunum í tengslum við framkvæmd forsetakosninganna sem fram hafa farið þar í landi í dag. Fram kemur í frétt AFP að svo virðist engu að síður sem kosningarnar hafi á heildina litið gengið vel fyrir sig.

Meðal þess sem kom upp voru ýmis vandamál tengd tölvukerfum samkvæmt fréttinni og bárust kvartanir vegna þess frá ýmsum stöðum í Bandaríkjunum.

Einn kjósandi tók upp á því að vekja athygli á umkvörtunarefni sínu með því að setja myndband á vefinn YouTube þar sem kosningavél með snertiskjá lét hann kjósa Mitt Romney, frambjóðanda repúblikana, þegar hann ætlaði að kjósa Barack Obama, Bandaríkjaforseta.

„Ég valdi upphaflega Obama en þá var merkt við Romney,“ er haft eftir manninum. Hann hefði þá ákveðið að vanda sig betur en allt hefði farið á sama veg. Tækið vildi endilega að hann veldi Romney.

Hins vegar bárust einnig kvartanir frá Ohio frá kjósendum sem sögðu kosningavélar velja Obama þegar ætlunin var að kjósa Romney. Þá ásökuðu demókratar ráðamenn í ríkinu úr röðum repúblikana um að taka í gagnið vélar sem ekki hefðu verið nægjanlega prófaðar fyrst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert