Vitni skýra frá „hávaðarifrildi“

Pistorius í réttarsalnum í morgun.
Pistorius í réttarsalnum í morgun. mbl.is/afp

Vitni heyrðu „stanslaust öskur“ frá heimili Oscars Pistorius í aðdraganda þess að hann banaði unnustu sinni, Reeva Steenkamp, árla morguns á valentínusardaginn. Hann hefur verið ákærður fyrir manndráp að yfirlögðu ráði.

Pistorius hefur krafist þess að vera látinn laus gegn tryggingu meðan á morðmálinu stendur og er fyrirtaka þeirrar kröfu fyrir rétti í dag, annan daginn í röð. Saksóknarar lögðust í morgun gegn því að hann fengi frelsi og vitnuðu til þess að heima hjá honum hefðu fundist gögn um bankareikninga í skattaskjólum og því væri ástæða til að óttast að hann flýði land.

Fram kom í dag, að vitni hafi heyrt langvarandi og hávært rifrildi berast frá húsi Pistorius milli klukkan tvö og þrjú að nóttu að staðartíma. Sjálfur sagðist Pistorius fyrir réttinum í gær hafa verið sofandi þar til augnabliki áður en hann skaut gegnum hurð á salerni þar sem hann hélt innbrotsþjóf hafa leitað. Hann sagðist hafa haldið Steenkamp sofa við hlið sér en áttað sig síðar að hún var ekki í rúminu og þá hafi runnið upp fyrir sér, að ef til vill hafi hún verið á salerninu en ekki óboðinn gestur.

Stjórnandi lögreglurannsóknarinnar, Hilton Botha, sagði að Steenkamp hafi verið fullklædd er hún var skotin en hann kom á vettvang klukkan 4:15 að morgni. Hafi hún þá legið látin á gólfi jarðhæðar, klædd hvítum stuttbuxum og svörtu vesti og þakin handklæðum.

Botha sagði lögregluna hafa lagt hald á tölvukubb með upplýsingum um bankareikninga Pistorius í skattaskjólum. Tilvist þeirra gerðu að verkum að ætla mætti að hann reyndi að flýja land. „Við viljum ekki annað Dewani-mál,“ sagði Botha og vísaði þar til Shrien Dewani, sem komst til Bretlands og berset þar gegn framsali sínu til Suður-Afríku þar sem hann er eftirlýstur og sakaður um að hafa bruggað launráð um morð á konu sinni, Anni, árið 2010.

Hilton Botha, stjórnandi morðrannsóknarinnar.
Hilton Botha, stjórnandi morðrannsóknarinnar. mbl.is/afp
Óvíst er að takist í dag að ljúka málflutningi vegna …
Óvíst er að takist í dag að ljúka málflutningi vegna kröfu um að Pistorius verði látinn laus gegn tryggingu. mbl.is/afp
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert