Margir minnast Járnfrúarinnar

Margaret Thatcher verður borin til grafar með samskonar viðhöfn og Díana prinsessa og Drottningarmóðirin í St. Pauls dómkirkjunni í London. Flaggað er í hálfa stöng víða í Bretlandi í dag, þar á meðal við Downing stræti 10. Stjórnmálaleiðtogar víða um heim heiðra minningu hennar, en viðbrögðin við andláti Járnfrúarinnar eru þó misjöfn.

Thatcher lést í morgun af völdum heilablóðsfalls. Hún var 87 ára gömul og hafði um nokkra hríð verið við slæma heilsu. Thatcher var fyrsta og enn sem komið er eina konan til að gegna embætti forsætisráðherra Bretlands. Hennar er minnst sem eins merkasta stjórnmálaleiðtoga Bretlands en var alla tíð afar umdeild og er enn, eins og sjá má á viðbrögðum almennings í Bretlandi við andláti hennar í dag. 

Litrík minning sem lifir

„Við höfum misst frábæran leiðtoga, frábæran forsætisráðherra og frábæran Breta,“ sagði David Cameron núverandi forsætisráðherra Bretlands á Twitter í dag. Hann hefur áður sagt um Thatcher að hún sé merkasti forsætisráðherra Bretlands á friðartímum.

Fleiri stjórnmálaleiðtogar Bretlands hafa tjáð sorg sína, þ.á.m. varaforsætisráðherrann Nick Clegg sem lýsir Thatcher sem afgerandi persónuleika í stjórnmálalífinu. „Skoðanir kunna að hafa verið skiptar í stjórnartíð hennar en allir ættu að geta sameinast í dag um að viðurkenna sterkan persónuleika hennar og róttækni í stjórnmálum.“

Hinn litríki borgarstjóri London, Boris Johnson, tjáði eftirsjá sína einnig á Twitter. „Minning hennar mun lifa löngu eftir að heimurinn hefur gleymt öllum gráu jakkafötunum í stjórnmálum dagsins í dag.“

Leiðtogi UKIP, Nigel Farage, þakkar Thatcher mikinn innblástur og bætir við: „Hvort sem þú elskaðir hana eða hataðir þá getur enginn neitað því að hún var mikill föðurlandsvinur sem trúði af ástríðu á þetta land og þessa þjóð. Sannkallaður risi í breskri stjórnmálasögu og hefur nú yfirgefið sviðið.“

Gorbatsjov og Walesa þakka hennar framlag

Stjórnmálaleiðtogar um allan heim minnast Thatcher einnig í dag, ekki síst fyrrverandi leiðtogar Austur-Evrópu sem þakka fyrir hennar hlutdeild í að flýta falli járntjaldsins.

Lech Walesa, fyrrverandi forseti Póllands segir Thatcher hafa verið stórkostlega manneskju. „Hún gerði mikið fyrir heiminn allan, ásamt Ronald Reagen, Jóhannesi Páli II páfa og Einingu (Solidarity) stuðlaði hún að hnignun kommúnismans í Póllandi og Mið-Evrópu. Ég bið fyrir henni.“

Mikhaíl Gorbatsjov fyrrverandi leiðtogi Sovétríkjanna segist sorgmæddur yfir fréttum af dauða Thatcher. „Margaret Thatcher var merkilegur stjórnmálamaður og sterkur persónuleiki. Minning hennar mun lifa með okkur og vera skráð í sögubækurnar. Orð hennar sem stjórnmálamaður höfðu mikla vikt og áhrif.“

Ruddi brautina fyrir konur

Barack Obama sagði í dag að með Thatcher hafi heimsbyggðin misst mikinn baráttumann fyrir frelsi, og Bandaríkin hafi misst sannan vin. Hann sagði jafnframt að sem fyrsti kvenleiðtogi Bretlands hafi Thatcher verið stúlkum fyrirmynd og sýnt að ekkert glerþak sé til sem ekki megi brjóta.

George Bush fyrrverandi Bandaríkjaforseti minnist Thatcher sömuleiðis og segir slíka leiðtoga sjaldséða. Hún hafi stuðlað að því að skapa betri og frjálsari heim.

Angela Merkel kanslari Þýskalands kallar Thatcher einstakan leiðtoga í heimsmálunum. Hennar verði ekki minnst aðeins sem konu í stjórnmálum, heldur sem konu sem hafi rutt brautina fyrir aðrar konur upp valdastigann. Helmut Kohl fyrrverandi kanslari Þýskalands hefur einnig tjáð sig um Thatcher og lofað ástríðu hennar fyrir frelsi og heiðarleika.

Undirskriftarsöfnun gegn ríkisstyrktri jarðarför

Meðal almennings í Bretlandi eru fyrstu viðbrögð blendnari. Einhverjir hafa lagt leið sína með blóm að Downingstræti 10, en aðrir tjá ánægju sína með fráfall Járnfrúarinnar. Thatcher var talskona frjálshyggju og einkavæðingar og deildi m.a. á stéttafélögin í Bretlandi í stjórnartíð sinni. Óhætt er að segja að hún naut ekki vinsælda meðal verkamannastéttarinnar í landinu.

BBC vitnar í ónefndan lesanda sem segir: „Ég veit að það verða margir sem syrgja og margir sem fagna brotthvarfi hennar. Sem barnabarn námuverkamanns geri ég hvorugt. Mín viðbrögð við þessari fregn eru þögult sinnuleysi.“

Á Facebook hafa sumir boðað veisluhöld vegna andláts Thatcher. Þá hefur verið sett verið upp undirskriftarsíða þar sem þess er krafist að útför Thatcher fái ekki opinbera heiðursútför, en innan við 10 þúsund hafa skrifað undir. Á Twitter benda gárungarnir á að það væri enda ekki í anda Járnfrúarinnar að vera borin til grafar á kostnað ríkisins.

Ferill Margaret Thatcher í myndum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert