Úrskurðaður látinn 102 árum síðar

Johan Johannsson vann við skógarhögg í Kanada.
Johan Johannsson vann við skógarhögg í Kanada. AP

Sænskur skógarhöggsmaður, Johan Johansson, hefur verið úrskurðaður látinn af sænskum yfirvöldum 102 árum eftir að síðast spurðist til hans. Ef hann væri á lífi í dag væri hann 139 ára gamall.

Johan fæddist 25 nóvember árið 1873 og er talinn hafa látist 30. apríl árið 1911 sé tekið mið af gögnum kanadísku kirkjunnar. Engu að síður var hann skráður eigandi landareignar í Svíþjóð. Afkomandi mannsins sótti um að fá útgefið dánarvottorð til að geta gert tilkall til eignarinnar. Yfirvöld urðu við óskum mannsins.

Síðast spurðist til Johans árið 1910 í bréfi sem bróðir hans skrifaði til ættingja. Þeir bræðurnir voru staddir saman í vinnubúðum skógarhöggsmanna í Vancouver þegar bréfið var ritað.

Bróðir Johans ílengdist í Kanada en ritaði annað bréf til ættingja sinna árið 1929 þar sem hann sagðist ekki vita um afdrif bróður síns. Per Johansson, afkomandi Johans, sendi inn beiðni um að fá útgefið dánarvottorð. Meðal annars þurfti hann að leggja fram bréfin sem sönnunargögn í málinu. Þrátt fyrir að í bréfunum hafi ekkert komið fram sem sannaði andlát Johans ákváðu yfirvöld að gefa út vottorðið.

Landareignina keypti Johan árið 1893, tvítugur að aldri.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert