Nigella skilin að borði og sæng

Nigella Lawson
Nigella Lawson AFP

Breski sjónvarpskokkurinn Nigella Lawson og listaverkasafnarinn Charles Saatchi fengu í dag skilnað að borði og sæng hjá dómara í Lundúnum. Hvorugt þeirra mætti í réttarsalinn og ekki heldur lögmenn þeirra. Í síðasta mánuði náðust myndir af þeim á veitingastað þar sem hann tók hana kverkataki.

Þau geta síðan fengið lögskilnað eftir sex vikur en talið er að gengið verði endanlega frá skilnaðinum í september.

Ljósmyndarinn sem tók myndirnar af rifrildi parsins segir að það hafi staðið í um hálftíma. Á einni myndinni má sjá Saatchi taka Nigellu hálstaki og á annarri að stinga fingri upp í nef hennar. Í kjölfarið fór Nigella grátandi af veitingastaðnum þar sem rifrildið átti sér stað.

Saatchi sem efnaðist mjög í auglýsingageiranum hefur komið mörgum breskum listamönnum á framfæri. Má þar nefna Damien Hirst.

Lawson, sem er dóttir fyrrverandi fjármálaráðherra Bretlands, Nigel Lawson, hefur í gegnum tíðina lýst eiginmanninum sem sprengju og vísar þar til þess hversu skapmikill hann er.

Parið hefur lýst því yfir að þau muni ekki gera neinar fjárhagslegar kröfur á hvort annað en talið er að persónulegar eigur Saatchi séu rúmlega 100 milljónir punda, rúmir 18 milljarðar króna. Lawson er talin hafa þénað yfir 20 milljónir punda á sölu á bókum og þáttagerð í sjónvarpi. Hún er að hefja störf í Los Angeles þar sem hún tekur upp sjónvarpsþætti fyrir bandaríska sjónvarpsstöð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert