Skrúfað fyrir styrki til Gullinnar dögunar

Alls greiddu 235 þingmenn af 300 atkvæði með því að …
Alls greiddu 235 þingmenn af 300 atkvæði með því að stöðva fjárframlög til Gullinnar dögunar. Enginn þingmaður greiddi atkvæði á móti tillögunni. AFP

Gríski hægriöfgaflokkurinn Gullin dögun mun ekki lengur hljóta opinbera styrki eftir að gríska þingið samþykkti með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða að stöðva opinber framlög til flokksins.

Samkvæmt nýrri grískri löggjöf geta stjórnvöld fryst framlög ótímabundið til flokka sem eru undir stjórn einstaklinga sem tengjast glæpasamtökum eða hryðjuverkastarfsemi. 

Leiðtogi Gullinnar dögunar og tveir þingmenn flokksins eru nú í haldi lögreglu og bíða þeir nú eftir að réttarhöld hefjist í málum þeirra, en þremenningarnir eru ákærðir fyrir að tengjast glæpasamtökum. 

Þeir voru handteknir eftir að tónlistarmaður, sem barðist gegn fasisma í heimalandinu, var myrtur, en talið er að stuðningsmaður Gullinnar dögunar hafi ráðið manninum bana. Talsmenn flokksins hafa hins vegar vísað ásökunum á bug. 

Morðið, sem var framið í síðasta mánuði, varð til þess að almenningur krafðist þess að flokkurinn yrði alfarið bannaður. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert