Síðasti fanginn af Torgi hins himneska friðar

Ein frægasta fréttamynd allra tíma sýnir ótrúlegt hugrekki kínversks mótmælanda …
Ein frægasta fréttamynd allra tíma sýnir ótrúlegt hugrekki kínversks mótmælanda sem gekk í veg fyrir skriðdrekana 1989. Enn í dag er ekki vitað um örlög mannsins.

25 ár eru liðin frá blóðbaðinu á Torgi hins himneska friðar í Peking, þar sem friðsamleg mótmæli stúdenta voru barin niður af hernum. Þegar skothríðinni lauk og göturnar urðu hljóðar 4. júní 1989 var fjöldi manns í varðhaldi. 1.600 manns fengu fangelsisdóm, en talið er að aðeins einn þeirra sé enn í haldi.

Hann heitir Miao Deshun, að því er fram kemur á vef BBC. Hann starfaði í verksmiðju og var fundinn sekur um íkveikju, með því að hafa kastað körfu á brennandi skriðdreka. Þetta þætti víðast minniháttar brot, en Miao fékk dauðadóm sem síðar var breytt í lífstíðarfangelsi. Hann á ekki von á að verða sleppt fyrr en í fyrsta lagi 15. september 2018 og mun þá hafa setið inni í tæp 30 ár.

Fyrrum samfangar Miaos sem BBC ræðir við segja að hann hafi verið skelfilega horaður.  „Hann var mjög þögull og oft langt niðri,“ segir Dong Shengkun, sem sat einnig fékk dóm eftir mótmælin á Torgi hins himneska friðar og sat inni með Miao.

Neitaði að láta „endurmennta“ sig

Fyrirspurnum BBC um hvort Miao sé enn á lífi hefur ekki verið svarað. Raunar svara kínversk fangelsisyfirvöld aldrei spurningum erlendra fjölmiðla. Bandarísk-kínversku samtökin Dui Hua, sem berjast fyrir réttindum fanga í Kína, segja hinsvegar að Miao sé líklega síðasti fanginn sem dæmdur var eftir mótmælin 1989.

Fyrrverandi samfangar hans segja að ólíkt flestum öðrum hafi Miao alla tíð neitað að skrifa undir yfirlýsingar um að hann hafi séð eftir að taka þátt í mótmælunum. Hann neitaði líka að taka þátt í þrælavinnu í fangelsinu.

„Hann er síðasti fanginn í haldi, vegna þess að hann neitaði að gangast við því að hafa brotið af sér, hann neitaði að beygja sig undir reglur og hann neitaði að láta „endurmennta“ sig í gegnum þrælavinnu,“ segir fyrrverandi fanginn Sun Liyong í samtali við BBC.

Óvíst hvort hann er enn á lífi

Sun býr nú í Ástralíu þar sem hann starfar sem byggingaverkamaður, en í frítíma sínum rekur hann stuðningssjóð fyrir fórnarlömb blóðbaðsins 1989. Hann segist ekki geta verið viss um að Miao sé enn á lífi. „Ég held sambandi við aðra fyrrverandi fanga og ég spyr þá alltaf hvort þeir hafi heyrt af Miao. Það er kominn áratugur síðan hann sást síðast.“

Að sögn BBC hefur fyrrverandi föngum gengið misvel að fóta sig á ný eftir mótmælin. Einum þeirra, Zhang Baoqun, var sleppt úr fangelsi árið 2003, eftir 15 ár. Honum hefur haldist illa á störfum og segist vera með flekkað mannorð vegna fangelsisvistarinnar.

„Ég myndi ekki taka þátt í svona löguðu aftur. Þetta var þýðingarlaust. Þú getur ekki breytt landinu þínnu, sama hvað þú reynir.“

Stjórnvöld herða tökin vegna afmælisins

Mikil öryggisgæsla hefur verið við torgið í Peking síðustu daga, eins og jafnan á þessum tíma árs þegar atburðanna 1989 er minnst. Flesta daga ársins er torgið troðið af ferðamönnum, bæði erlendum en líka kínverskum sem koma alls staðar að af landinu til að virða fyrir sér þetta fjórða stærsta torg heims.

Síðustu daga hefur öryggisgæslan hinsvegar verið svo stíf að nokkrum sinnum hefur torginu verið lokað almenningi. Þá segir tímaritið Time frá því að á síðustu vikum hafi fjöldi aðgerðarsinna, menntamanna, lögfræðinga, rithöfunda og ættingja þeirra sem voru drepnir 1989 verið tekin höndum og yfirheyrð.

Þá hefur verið hert á ritskoðun á netinu og hægt á hraða netsins. Í augum margra Kínverja er þessi tregða á netinu afskaplega dularfull. Ungir Kínverjar sérstaklega vita lítið sem ekkert um atburðina fyrir 25 árum, að sögn Time, því mótmælin og blóðbaðið sem endaði þau hafa verið þurrkuð út úr opinberu sagnaminni Kínverja.

Mikil öryggisgæsla hefur verið á Torgi hins himneska friðar síðustu …
Mikil öryggisgæsla hefur verið á Torgi hins himneska friðar síðustu daga, eins og ávallt í byrjun júní þegar blóðbaðsins fyrir 25 árum er minnst. AFP
Ferðamenn virða fyrir sér brjóstmyndina af Mao Zedong á Torgi …
Ferðamenn virða fyrir sér brjóstmyndina af Mao Zedong á Torgi hins himneska friðar í Peking. AFP
Kínverska herlögreglan stendur vörð á Torgi hins himneska friðar, nú …
Kínverska herlögreglan stendur vörð á Torgi hins himneska friðar, nú þegar 25 ár eru liðin frá blóðbaðinu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert