Játar að hafa brytjað elskhugann niður

Luka Rocco Magnotta.
Luka Rocco Magnotta. AFP

Kanadíski klámmyndaleikarinn Luka Magnotta hefur játað að hafa drepið kínverskan elskhuga sinn og sent líkamshluta hans á skrifstofur stjórnmálaflokka. Hann segist þó ekki sekur um morð. Aðalmeðferð í morðmálinu fer nú fram í Quebec. Saksóknarinn í málinu segir Magnotta heilan á geði en verjandi hans heldur því fram að hann glími við alvarlegan geðsjúkdóm og sé því ekki sakhæfur.

Magnotta er 32 ára gamall. Hann er ákærður í fimm liðum, m.a. fyrir að myrða verkfræðinemann Jun Lin árið 2012 með ísnál. Þá er hann sakaður um hafa níðst á líkinu kynferðislega og brytjað það svo niður.

Í maí það ár barst pakki til skrifstofu Íhaldsflokksins í Kanada. Í honum reyndist vera afskorinn fótur. Sama dag fannst hönd í pakka á pósthúsi en pakkinn var stílaður á Frjálslynda flokkinn í Kanada.

Síðar fannst búkur Lins í ferðatösku á ruslahaug fyrir utan íbúð Magnotta í Montreal. Stuttu síðar bárust tveimur skólum í Vancouver hönd og fótur í pósti.

Mikil leit var gerð að Magnotta og hann var loks handtekinn í Berlín.

Í frétt Sky-sjónvarpsstöðvarinnar um réttarhöldin í dag segir að saksóknarinn hafi varað kviðdóminn við „ógeðfelldum“ sönnunargögnum sem lögð yrðu fram. Þar á meðal er myndband og ljósmyndir af sundurlimuðu líki Lins. Myndirnar og myndbandið tók Magnotta sjálfur. Myndbandið birti hann m.a. á netinu.

Fréttir mbl.is:

„Brjálæðingurinn“ ekki geðveikur

Stakk fórnarlambið með ísnál

„Brjálæðingurinn“ fyrir dóm

Fórnarlamb „kanadíska brjálæðingins“ borið til grafar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert