Voru pyntaðir fyrir aftökurnar

Úr myndbandinu þar sem James Foley er afhöfðaður.
Úr myndbandinu þar sem James Foley er afhöfðaður. Skjáskot

Bandarísku blaðamennirnir James Foley og Steven Sotloff, ásamt fleiri föngum hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams, þurftu að þola pyntingar og mjög slæma meðferð áður en þeir voru teknir af lífi. Þetta kemur fram í ítarlegri umfjöllun New York Times um málið.

Fangarnir voru ítrekað lamdir og þurftu að þola svokallaðar vatnspyntingar eða „waterboarding“. Mánuðum saman voru þeir sveltir og þeim hótað lífláti. Fangarnir vinguðust hver við annan og spiluðu til að drepa tímann, en þegar örvæntingin var orðin mikil snerust þeir hver gegn öðrum. Sumir þeirra, þar á meðal Foley, leituðu huggunar í trú vígamannanna og tóku jafnvel upp múslímsk nöfn.

Vígamennirnir birtu myndbönd á netinu af því þegar Foley og  Sotloff voru hálshöggnir. Þá voru tveir Bretar, leigu­bílstjór­inn Alan Henn­ing og hjálparstarfsmaðurinn David Haines, einnig teknir af lífi með sama hætti. Í myndböndunum má sjá mennina í appelsínugulum samfestingum í eyðimerkurlandslagi. Mennirnir eru látnir lesa upp handrit þar sem fram kemur að heimalönd þeirra séu ábyrg fyrir dauða þeirra áður en grímuklæddur maður sker þá á háls.

Samkvæmt umfjöllun New York Times hafði Foley mátt þola sérstaklega slæma meðferð af hálfu vígamannanna. Foley, sem var 40 ára gamall, var tekinn til fanga árið 2012 og var fyrsti vestræni fanginn sem var tekinn af lífi af hálfu samtakanna. Eftir það voru Sotloff, Haines og Hennig einnig hálshöggnir á meðan myndbandsupptaka rúllaði.

Bandaríski hjálparstarfsmaðurinn Abdul Rahman Kassig er sagður næstur í röð fanga sem hryðjuverkasamtökin hyggjast aflífa. Þá er breski ljósmyndarinn John Cantlie einnig í haldi vígamannanna. Talið er að Kassig og Cantlie séu einu vestrænu fangarnir sem enn eru í haldi, ásamt ónefndri konu. 

Fjölda fanga hefur þegar verið sleppt og voru þeir flestir frá löndum sem þekkt eru fyrir að greiða lausnargjald samkvæmt Times. Þá segir að með lausnargjaldi hvetji evrópskar þjóðir hryðjuverkasamtök eins og Ríki íslam til að taka fólk til fanga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert