Hvað eru „kynmök“?

Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint.
Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Það liggur fyrir hæstarétti Flórída að úrskurða um lagalega skilgreiningu orðsins „kynmök“. Ríkið vill meina að orðið nái til hvers konar kynlífs, en verjandi manns, sem var ákærður fyrir að hafa smitað elskhuga sinn af HIV, heldur því fram að skilgreiningin nái aðeins til samfara milli karls og konu.

Forsaga málsins er sú að árið 2011 var Gary nokkur Debaun ákærður fyrir að hafa stundað munn- og endaþarmsmök með elskhuga sínum, án þess að upplýsa hann um að hann hefði verið greindur með HIV.

Samkvæmt lögum í Flórída verða þeir sem hafa verið greindir með HIV að upplýsa elskhuga sína um greininguna, áður en til kynmaka (sexual intercourse) kemur. Málinu gegn Debaun var vísað frá af dómara sem komst að þeirri niðurstöðu að í lögum Flórídaríkis næði orðið „kynmök“ aðeins til kynlífs milli karls og konu.

Saksóknarar áfrýjuðu málinu og sögðu hugtakið ekki aðeins ná til leggangasamfara, heldur næði það til allra kynlífsathafna sem gætu leitt til HIV-smits. Áfrýjunardómstóllinn samþykkti rökin en biðlaði til hæstaréttar Flórída um skilgreiningu á orðinu.

Saksóknarar hafa haldið því fram að ólíklegt verði að teljast að lög hafi verið sett til verndar íbúum ríkisins án þess að gert hafi verið ráð fyrir víðtækri túlkun á hugtakinu „kynmök“. Það hafi ekki verið ætlunin að gera kynmök sem slík ólögmæt, heldur það framferði að setja aðra í hættu.

Lögmenn Debaun hafa hins vegar sagt að „kynmök“ hafi ítrekað verið túlkuð sem kynlíf milli manns og konu í lögum ríkisins, óháð því hvað löggjafinn kann að hafa ætlað með orðanotkuninni.

Guardian sagði frá

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert