Myndarlegir öfgamenn sem tálbeitur

AFP

Myndarlegir öfgamenn eru notaðir sem tálbeitur til þess að laða að ungar múslímastúlkur. Þetta segir ung kona sem áður starfaði með öfgasamtökum. 

Ayesha, sem er ekki hennar rétta nafn, segir í samtali við BBC Newsnight að sér hafi verið kennt að líta á Bretland sem óvin. Hún hafnar þessari hugmyndafræði í dag en segir að meðal fyrrverandi félaga hennar sé „Jihadi-John“ átrúnaðargoð. 

Ekki er langt síðan upplýst var að þrjár ungar breskar stúlkur hefðu yfirgefið heimalandið til að ganga til liðs við skæruliðahreyfingu í Sýrlandi. Þetta hefur vakið spurningar um hvað valdi því að breskar stúlkur taki slíka ákvörðun. 

Ayesha, sem er frá Midlands, er rúmlega tvítug en þegar hún var 16 eða 17 ára var fyrst haft samband við hana af liðsmönnum öfgasamtaka.

Það var í gegnum Facebook en hún fékk skilaboð um hversu aðlaðandi hún væri og það væri tímabært að hylja þessa fegurð þar sem hún væri svo dýrmæt.

Ayesha segir í viðtalinu að skilaboðin hafi daðrað við áreiti en sennilega hafi þetta verið besta leiðin til að nálgast hana því þarna hafi verið spilað á trúarskoðanir hennar og ef hún hlýddi ekki myndi hún enda í helvíti. Þarna hafi tekist á töfraljómi og hræðsla.

Líkt og aðrir unglingar hafi hún haft gaman af því að horfa á sæta stráka og á myndskeiðum sem hún fann á YouTube vildi svo til að allir skæruliðarnir voru mjög, mjög myndarlegir. Hún hafi hugsað að þarna væru einhverjir sem hún gæti átt í sambandi við þar sem þau aðhylltust sömu trúarbrögð án þess að koma úr sama umhverfi. Það hafi kitlað og verið spennandi.

Ayesha heillaðist af ýmsum hópum, meðal annars sómölsku hryðjuverkasamtökunum al-Shabab. „Þetta er svona - að ná til hans áður en hann deyr. Og þegar hann deyr sem píslarvottur þá sameinast þú honum í himnaríki.“

Það voru einkum samtökin al-Qaeda og al-Shabab sem heilluðu enda var þetta fyrir tíma Ríkis íslams sem nú virðist ráða ríkjum meðal þeirra sem ganga til liðs við öfgahreyfingar.

Að sögn Ayeshu var þeim ráðlagt að líta ekki á sig sem Breta enda ætti að líta á þá sem „kuffar“ (ekki múslímar), þjóð sem hefði drepið marga múslíma og væri óvinurinn. „Þú treystir ekki ríkinu, þú treystir ekki lögreglunni, þú sendir ekki börnin þín í ríkisrekna skóla,“ segir Ayesha í viðtalinu.

Henni var sagt að líta niður á breskar konur enda hegðuðu þær sér eins og karlar og væru viðbjóðslegar. En þar kom að Ayesha hafnaði þessari hugmyndafræði. Þar skipti mestu hvernig litið var á konur og eins að það hafi þótt sjálfsagt og nauðsynlegt að drepa einhvern sem ekki væri múslimi.

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert