Bankarnir eru akkilesarhæll Grikkja

AFP

Þar til í þessari viku heyrðust miklar og háværar áhyggjuraddir um hvort grískum stjórnvöldum tækist að standa skil á 1,6 milljarða evra afborgun af láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem er á gjalddaga 30. júní næstkomandi, eftir níu daga.

Það eru vitaskuld enn miklar áhyggjur uppi um mögulegt greiðslufall gríska ríkisins í lok mánaðarins, en það má kannski segja að þær áhyggjur hafi fallið í skuggann af frekari - og mögulega alvarlegri - stórtíðindum í þessari viku: hratt versnandi stöðu grískra banka.

Áhyggjufullir innstæðueigendur héldu áfram að taka peningana sína út úr grískum bönkum í vikunni. Áhlaupið var mikið, svo mikið að hagfræðingar vöruðu við því að með sama áframhaldi stefndu bankarnir hratt fram af bjargbrúninni. Á fundi fjármálaráðherra evruríkjanna í Lúxemborg á fimmtudaginn velti Benoit Couré, sem situr í bankastjórn Evrópska seðlabankans, því alvarlega fyrir sér, og viðraði þar áhyggjur sínar, hvort grískir bankar gætu yfir höfuð haldið starfsemi sinni gangandi nú á mánudaginn.

Tryggt Grikkjum líflínu

Evrópski seðlabankinn hefur hjálpað grískum bönkum á undanförnum mánuðum með því að veita þeim mikilvæg neyðarlán. Þannig hefur hann í raun tryggt þeim ákveðna líflínu.

En ef fjárhagsstaða gríska ríkisins heldur áfram að versna gæti farið svo að reglur Evrópska seðlabankans komi í veg fyrir að bankinn geti veitt grísku bönkunum frekari aðstoð. Það gæti jafnvel gerst mjög bráðlega. Og á meðan aukast líkurnar á því að Grikkir yfirgefi evrusvæðið.

„Örlög grísku bankanna velta á þróuninni í grískum stjórnmálum, sem mun bæði hafa áhrif á eiginfjárstöðu þeirra sem og lausafjárstöðuna,“ segir Jonas Floriani, greinandi hjá KBW Resarch, í samtali við Financial Times.

Greinendur segja að grískir bankar séu berskjaldaðir á þremur sviðum.

Hætta á lausafjárskorti

Í fyrsta lagi hafa sérfræðingar áhyggjur af lausafjárskorti bankanna. Með öðrum orðum telja þeir að möguleikar bankanna til að breðast við skammtímaútflæði fari þverrandi. Eins og kunnugt er hafa almennir borgarar, fjárfestar og fjölmörg fyrirtæki tekið út gríðarlegar fjárhæðir úr bönkunum á undanförnum vikum.

Innlendar innstæður bankanna hafa nú þegar dregist saman um meira en fimmtung frá því í lok nóvembermánaðar á seinasta ári og námu þær aðeins um 140 milljörðum evra í apríl, samkvæmt nýlegum tölum frá gríska seðlabankanum. Greinendur segja að staðan hafi versnað til muna síðan þá, á seinustu sex vikum.

Seinasta fimmtudag tóku innstæðueigendur út einn milljarð evra úr bönkunum og samtals um fimm milljarða evra í vikunni, samkvæmt heimildum FT.

Afleiðingarnar hafa verið þær að grískir lánveitendur reiða sig nú í æ meira mæli á stuðning Evrópska seðlabankans og þá sérstaklega neyðarsjóð hans, ELA, sem þeir hafa nýtt sér óspart á umliðnum misserum.

Eiga mikið af grískum ríkisskuldabréfum

Þar til um miðjan maímánuð höfðu fjórir stærstu bankarnir í Grikklandi - National Bank of Greece, Alpha, Piraeus og Eurobank - tekið yfir 110 milljarða evra að láni, þar af um 75 milljarða evra í gegnum ELA, samkvæmt greiningu KBW Research.

Evrópski seðlabankinn hækkaði á miðvikudaginn heimildir grískra banka til að fá lán í gegnum ELA úr 83 milljörðum evra í 84,1 milljarða og samþykkti hófsama hækkun því til viðbótar á föstudaginn - þó ekki eins mikla hækkun og grísk stjórnvöld höfðu óskað eftir.

Til þess að fá neyðarfjármögnun frá Evrópska seðlabankanum þurfa bankar að vera færir um að greiða skuldir sínar að fullu og einnig þurfa þeir að hafa til taks eignir af góðum gæðum sem þeir geta lagt fram sem veð.

Greinendur telja að grískir lánveitendur eigi nógu góðar eignir í söfnum sínum, en þeir hafa hins vegar meiri áhyggjur af greiðsluhæfi bankanna til lengri tíma litið.

Það hefur að einhverju leyti að gera með fjármagnsstöðu grísku bankanna. Fjórir stærstu bankar landsins eru taldir vera vel fjármagnaðir - að minnsta kosti ef marka má ársreikninga þeirra - en vaxandi efasemdir eru uppi um gæði eignanna. Hafa sumir fjármálasérfræðingar meðal annars bent á að greiðslufall gríska ríkisins, sem og aðrir alvarlegir atburðir, gæti stórskaðað eignasafn bankanna.

Helsti veikleikinn er sá að bankarnir eiga fjöldann allan af grískum ríkisskuldabréfum. Fjórir stærstu bankarnir eiga slík bréf að virði næstum því fimmtán milljarða evra. Ef Grikkjum tekst ekki að standa skil af afborguninni til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir lok mánaðarins, þá munu þessi bréf hríðfalla í verði. Það er nokkuð óumdeilt.

Samdráttur í efnahagslífinu

Í þriðja lagi hafa grískir bankar ekki farið varhluta af versnandi stöðu gríska hagkerfisins. Efnahagsbatinn í landinu var nokkur á seinasta ári - þó afar brothættur - en landsframleiðsla Grikklands dróst hins vegar saman á fyrsta fjórðungi ársins. Ástandið er frekar svart í efnahagslífinu og halda fyrirtæki enn að sér höndum þegar kemur að fjárfestingum og mannaráðningum. Á sama tíma hefur vanskilalánum bankanna fjölgað verulega.

Greiðslufall gríska ríkisins myndi aðeins gera vonda stöðu enn verri. Grískir bankar, sem eru eins og áður sagði enn veikburða og brothættir, mega engan veginn við frekari búsifjum.

Margarita Streltses, greinandi hjá svissneska bankanum UBS, segir að þessi langvinna óvissa sem er til staðar vegna deilna grískra stjórnvalda við lánardrottna sína, sem og slæm fjárhagsstaða bankanna, muni setja aukinn þrýsting á hagkerfið. Það muni að lokum leiða til enn frekari vandræða fyrir grísku bankana.

Gætu farið kýpversku leiðina

Ef Evrópski seðlabankinn kemst að þeirri niðurstöðu að grísku bankarnir, sem hafa notið stuðnings hans, séu ekki gjaldfærir, þá mun hann hætta að veita þeim neyðarlán í gegnum ELA. Greinendur telja að ef sú staða kemur upp hafi grísk stjórnvöld engan annan kost í stöðunni en að setja á víðtæk gjaldeyrishöft.

Í kjölfarið gætu Grikkir þurft að velja á milli tveggja leiða. Þeir gætu annars vegar farið kýpversku leiðina. Snemma árs 2013 voru ströng gjaldeyrishöft sett á í Kýpur og innstæðueigendur sem áttu meira en 100 þúsund evrur á bankareikningum „látnir blæða“ ef svo má að orði komast. Þeir töpuðu gríðarlegum fjármunum, eða um 40 til 50% af innstæðum sínum.

Hins vegar gætu Grikkir gripið til þess ráðs að kasta evrunni og byrjað þess í stað að prenta sinn eigin gjaldmiðil. Það gæti virkað til skamms tíma litið en hagfræðingar eru ekki sannfærðir um að það sé líklegt til árangurs þegar litið er til lengri tíma. Trúverðugleiki grískra stjórnvalda yrði enginn.

Höfuðstöðvar gríska seðlabankans í miðborg Aþenu.
Höfuðstöðvar gríska seðlabankans í miðborg Aþenu. AFP
AFP
AFP
Grikkir halda áfram að taka peninga sína út úr grískum …
Grikkir halda áfram að taka peninga sína út úr grískum bönkum. AFP
AFP
Yanis Varoufakis, hinn skrautlegi fjármálaráðherra Grikklands.
Yanis Varoufakis, hinn skrautlegi fjármálaráðherra Grikklands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert