NATO stendur við bakið á Tyrkjum

Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, Jens Stoltenberg, segir að bandalagið standi staðfastlega við bakið á Tyrkjum sem standi frammi fyrir hryðjuverkum og óstöðugleika á landamærum sínum til suðurs.

Stoltenberg segir að NATO fylgist grannt með og styðji við bakið á bandamönnum sínum, Tyrkjum. Þetta er meðal þess sem kom fram í máli hans við setningu neyðarfundar NATO í Brussel í morgun.

Sendinefndir frá öllum aðildarríkjum NATO, 28 talsins, taka þátt í fundinum sem var boðaður af hálfu tyrkneskra stjórnvalda. Þetta er í fimmta skiptið sem NATO er boðað til neyðarfundar sem þessa vegna árásar á aðildarríki NATO en undanfarna daga hafa tyrkneskar hersveitir gert loftárásir á liðsmenn Ríkis íslams í Sýrlandi og á liðsmenn PKK í Norður-Írak. Þessum loftárásum hefur verið svarað með árásum á Tyrkland.

Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, segir að stjórnvöld í Tyrklandi geti ekki staðið við friðarsamkomulagið við Kúrda á sama tíma og ráðist sé á tyrknesk skotmörk. Vísar hann þar til árása PKK, sem í áratugi barðist blóðugri baráttu fyrir sjálfstæði Kúrda í Tyrklandi, en krefst nú aukinnar sjálfstjórnar í stað sjálfstæðis. PKK eru skilgreind sem hryðjuverkasamtök í Tyrklandi og víða á Vesturlöndum.

Samkvæmt BBC eru þetta helstu atburðirnir sem breyttu afstöðu Tyrkja:

Mánudaginn 20. júlí voru 32 drepnir af liðsmönnum Ríkis íslams í bænum Suruc, skammt frá landamærum Sýrlands. Flestir íbúar bæjarins eru Kúrdar.

Fimmtudaginn 23. júlí skutu liðsmenn Ríkis íslams tyrkneskan landamæravörð og liðsmenn PKK drápu tvo tyrkneska lögreglumenn í Suruc.

Á föstudag handtóku Tyrkir hundruð stuðningsmenn Ríkis íslams og leituðu á heimilum þeirra. Tyrkneskar F-16 herþotur skutu þremur sprengjum á skotmörk tengd Ríki íslams í Sýrlandi.

Á laugardag gerði tyrkneski herinn loftárásir á Ríki íslam og PKK í Sýrlandi og Írak. PKK lýsir því yfir að Tyrkir hafi rofið friðarsamkomulagið.

Á sunnudag létust tveir tyrkneskir hermenn í bílsprengjuárás sem gerð var á bílalest hersins í Lice í Diyarbakir héraði. Tyrkneski herinn heldur loftárásum áfram í Sýrlandi og Írak.

Jens Stoltenberg
Jens Stoltenberg AFP
AFP
Recep Tayyip Erdogan
Recep Tayyip Erdogan AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert