Merkel: Flóttamannastraumurinn mun breyta Þýskalandi

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segir að sá mikli fjöldi flóttafólks sem hefur komið til landsins muni koma til með að breyta Þýskalandi á næstu árum. Hún segir að þýsk stjórnvöld muni vinna að því að hraða málsmeðferð flóttafólks og reisa fleiri hús. Það kalli hins vegar á aðstoð annarra Evrópusambandsríkja.

Francois Hollande, forseti Frakklands segir að unnið sé að því að skipuleggja flóttamannakvóta fyrir aðildarríki ESB. Alls er um 120.000 flóttamenn að ræða og segir Hollande að Frakka muni taka við 24.000 manns. Bretar hafa samþykkt að taka við 20.000 flóttamönnum frá Sýrlandi næstu fimm árin, að því er segir á vef BBC. Búist er við að nýjar tölur verði birtar með formlegum hætti á miðvikudag. 

Ekkert hefur dregið úr straumi flóttamanna til Evrópu. Fjölmenni hefur streymt til Ungverjalands yfir landmærin sem liggja að Serbíu. 

Þjóðverjar búast við að um 800.000 hælisumsóknum á þessu ári. Talið er að kostnaðurinn vegna fjölgunarinnar geti numið um 10 milljörðum evra á næsta ári. Um 18.000 flóttamenn komu til Þýskalands um liðna helgi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert