Vilja skerða fjárframlög til ófúsra

Ungur drengur bíður þess að lest hans leggi af stað …
Ungur drengur bíður þess að lest hans leggi af stað frá Roszke-lestarstöðinni í Ungverjalandi áleiðis til Austurríkis. AFP

Stjórnvöld í Þýskalandi eru fylgjandi því að skerða fjárframlög til ríkja sem neita að taka við sameiginlega ákvörðuðum fjölda flóttamanna. Ráðherrar ríkja Evrópu funduðu um málið í Brussel í gær en fulltrúar nokkurra ríkja í austurhluta álfunnar neituðu að samþykkja tillögu um dreifingu þeirra 120.000 sem til stendur að taka á móti.

„Staða viðræðna er sú að ekkert hendir þau lönd sem neita. Við verðum að ræða leiðir til að beita þrýstingi. Þetta eru í mörgum tilfellum lönd sem hljóta umtalsverðar fjárveitingar frá Evrópusambandinu,“ sagði innanríkisráðherrann Thomas de Maizierer við ZDF.

Hann sagði að Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hefði lagt til að skerða fjárveitingar til óviljugra ríkja og hann væri sammála þeirri aðferð.

Vonir stóðu til að samkomulag næðist á fundinum í gær um dreifingu flóttafólksins en þær urðu að engu þegar fulltrúar Ungverjalands, Tékklands, Slóvakíu og Rúmeníu settu sig upp á móti því.

Stjórnvöld í Þýskalandi, sem gera ráð fyrir að taka á móti milljón hælisleitendum á þessu ári, hafa kallað eftir því að önnur Evrópuríki láti sitt ekki eftir liggja. Til að hægja á straumi flóttafólks til landsins gripu ráðamenn í Berlín til þess ráðs á sunnudag að herða landamæraeftirlit.

Girðingar rísa í Evrópu.
Girðingar rísa í Evrópu. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert