Le Pen frænkurnar fengu yfir 40%

Franski þjóðernisflokkurinn Front National hefur aldrei áður átt jafn miklu fylgi að fagna meðal frönsku þjóðarinnar og nú en flokkurinn fékk um 28,5% fylgi í fyrri umferð héraðskosningunum sem fram fóru í gær. Kosningarnar eru þær fyrstu í Frakklandi frá hryðjuverkaárásunum í París sem kostuðu 130 manns lífið.

En þrátt fyrir mikið fylgi í gær þá liggur niðurstaðan ekki fyrir fyrr en að viku liðinni er seinni umferð kosninganna fer fram og kosið verður á milli þeirra flokka sem fengu yfir 10% atkvæða í hverju héraði.

Marion Maréchal-Le Pen
Marion Maréchal-Le Pen AFP

FN er með forystu í sex héruðum af þrettán, samkvæmt lokatökum frá innanríkisráðuneytinu. Formaður FN, Marine Le Pen og 25 ára gömul frænka hennar Marion Maréchal-Le Pen náðu þeim sögulega árangri að fá yfir 40% fylgi í þeim héruðum sem þær voru í framboði en þetta þykir til marks um reiði margra Frakka í garð stjórnvalda vegna bágs efnahagsástands og straums flóttafólks til álfunnar sem margir líta á sem ógn gegn öryggi landsins.

Marine Le Pen, sem er lögfræðingur að mennt, fagnaði úrslitunum og sagði þau töfrum líkust og að þetta sanni að FN er fremsti flokkur Frakklands.

Hópur hægri flokka, sem buðu fram undir heiti flokks Nicolas Sarkozy, Les Républicains, fékk 27% atkvæða á meðan bandalag vinstri flokka, Sósíalistaflokkurinn, fékk 23,5% atkvæða.

Gríðarlegur öryggisviðbúnaður var á kjörstöðum í gær en um helmingur þeirra 45 milljóna Frakka sem voru á kjörskrá tóku þátt. 

Le Pen fékk 40,5% fylgi í Nord-Pas-de-Calais-Picardie héraði sem er fátækasta héraðið á meginlandi Frakklands en alls búa um sex milljónir þar. Héraðið var áður brjóstvörn vinstri flokkana. Ef litið er til einstakra hluta héraðsins, til að mynda hafnarborgarinnar Calais er le Pen með yfir 50% atkvæða en borgin hefur einkum komist í kastljós fjölmiðla að undanförnu vegna þess fjölda flótta- og förufólks sem heldur þar til í þeirri von að komast yfir Ermarsundið - til fyrirheitna landsins - Bretlands.

Maréchal-Le Pen fékk álíka mikið fylgi í sínu héraði, Provence-Alpes-Côte d’Azur, sem er eitt ríkasta hérað Frakklands og þekkt fyrir strandlengju sína, þangað sem margt af ríkasta fólki landsins á hús. Hún var að vonum ánægð með niðurstöðuna og sagði að um sögulega niðurstöðu væri að ræða og að gamla kerfið hafi dáið í gærkvöldi.

Maréchal-Le Pen sagði nýverið á kosningafundum að múslímar gætu ekki orðið Frakkar nema þeir tækju upp siði og venjur frönsku þjóðarinnar, í anda kristinnar gilda. Samkvæmt Guardian þá er hún mun öfgasinnaðri í skoðunum en frænka hennar en hún leggur til að héraðið hætti að fjármagna heilsugæslustöðvar sem sinna fjölskylduáætlunum þar sem hún telur að þær geri fóstureyðingar að hversdagslegum hlut.

Leiðtogi sósíalista, Jean-Christophe Cambadelis, segir að flokkurinn muni ekki taka þátt í seinni umferð kosninga í þessum tveimur héruðum og reyna að koma í veg fyrir sigur þeirra með því að hvetja kjósendur flokksins til þess að styðja LR. En Sarkozy neitar hins vegar að gera slíkt hið sama í þeim héruðum sem LR hafnaði í þriðja sæti.

Marine Le Pen
Marine Le Pen AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert