Hópárás í þýskri borg vekur óhug

Flugeldar við dómkirkjuna í Köln. Kirkjan stendur skammt frá lestarstöðinni …
Flugeldar við dómkirkjuna í Köln. Kirkjan stendur skammt frá lestarstöðinni þar sem árásirnar voru gerðar. AFP

Borgarstjórinn í Köln í Þýskalandi hefur kallað lögregluna til neyðarfundar eftir að 80 konur í borginni tilkynntu kynferðislegar árásir og rán á nýársnótt.

Árásirnar áttu sér stað á aðallestarstöðinni og hafa þær vakið mikinn óhug í Þýskalandi. Um 1.000 drukknir, ungir karlmenn voru viðriðnir árásirnar. 

Lögreglustjórinn, Wolfgang Albers, segir um að ræða „nýjar víddir í glæpum“. Haft er eftir honum í frétt BBC að mennirnir séu af arabískum og norður-afrískum uppruna.

Einnig var ráðist á konur í Hamborg. Árásin í Köln var þó mun alvarlegri. Að minnsta kosti einni konu var nauðgað en margar voru áreittar kynferðislega. Þá voru margar þeirra rændar.

Lögreglan var kvödd á staðinn á nýársnótt vegna mikils mannfjölda sem þar hafði safnast saman. Hins vegar tókst henni ekki að koma í veg fyrir árásirnar eða koma auga á þær.

Borgastjórinn Henriette Reker segir árásirnar „hryllilegar“. Hún segir að taka verði fast á málinu, gestir borgarinnar megi ekki óttast árásir.

Í frétt BBC, þar sem vitnað er til þýskra fjölmiðla, segir að árásarmennirnir séu þekktir fyrir vasaþjófnað nálægt lestarstöðinni og hafi því komið oft við sögu lögreglunnar. 

Eitt af því sem lögreglan rannsakar nú er hvort mennirnir, sem tóku þátt í árásunum, hafi skipulagt þær á samfélagsmiðlum. Þá er einnig verið að skoða fjarskiptagögn og upptökur úr öryggismyndavélum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert